Lífið

Mælir með því að tala við gervi­greind sem sál­fræðing

Ása Ninna Pétursdóttir skrifar
Guðjón Már Guðjónsson, oftast kenndur við Oz, talar um hvernig gervigreindin er orðin stór hluti af lífi hans bæði í leik og starfi. Faðir hans sem er nú á áttræðistaldri tali við hana daglega en einnig segist Guðjón nota gervigreindina til að hjálpa 5 ára syni sínum til að halda athygli, skerpa ímyndunaraflið og fræðast á skemmtilegan máta. 
Guðjón Már Guðjónsson, oftast kenndur við Oz, talar um hvernig gervigreindin er orðin stór hluti af lífi hans bæði í leik og starfi. Faðir hans sem er nú á áttræðistaldri tali við hana daglega en einnig segist Guðjón nota gervigreindina til að hjálpa 5 ára syni sínum til að halda athygli, skerpa ímyndunaraflið og fræðast á skemmtilegan máta.  Bylgjan

„Er hægt að spyrja hana að öllu?“ er spurning sem margir spyrja sig að þegar kemur að gervigreind. „Já, í raun og veru, þetta er eins og leitarvél á sterum”. Þetta segir Guðjón Már Guðjónsson, oftast kenndur við Oz, sem var gestur Bakarísins á Bylgjunni síðasta laugardag. ​​Sjálfur notar Guðjón gervigreindina daglega og bæði í leik og starfi. 

Í viðtalinu segir hann meðal annars frá því hvernig hann notar gervigreindina með 5 ára syni sínum og hvernig nýr heimur hefur opnast hjá 76 ára föður hans sem spjallar við gervigreindina daglega.

Leitarvél á sterum með 400 milljónir áskrifenda

Guðjón segir að allir ættu að prófa að leika sér með gervigreindina og geti notað hana á einhvern hátt en tæknin þróist nú á ógnarhraða. Hann leggur mikla áherslu á það að fólk þurfi þó að læra að nota hana rétt og gera sér grein fyrir því að hún gefi kannski ekki alltaf réttu upplýsingarnar.

Kenning Guðjóns er að eitt vinsælasta gervigreindar forritið, Chatgpt, hafi upphaflega orðið til næstum fyrir slysni, en svo hafi almenningur tekið tækninni fagnandi. 

„Þetta byrjaði sem opið kerfi – ókeypis – en svo varð álagið svo mikið að núna eru komnir yfir 400 milljónir áskrifendur.“

Guðjón segir möguleikana endalausa þegar kemur að notkun gervigreindarinn. Hann noti sjálfur spjallið á Chatgpt með 5 ára syni sínum Óðni Þór meðal annars til að hjálpa honum að halda athyglinni og búa til spennandi sögur. Aðsend mynd

Aðstoðar við uppeldi 5 ára sonar

Guðjón segir það kannski óraunverulegt fyrir fólk að gera sér grein fyrir því hversu öflug gervigreindin er og hversu fjölhæf, jafnvel sem hjálp og stuðningur við barnauppeldi. Hann tekur dæmi um það hvernig hann notar hana með 5 ára syni sínum til að hjálpa honum að halda athygli og efla ímyndunaraflið.

Hann getur stundum verið svolítið krefjandi. Hann er mjög virkur og það þarf svo sannarlega að hafa fyrir því að fanga athygli hans. Stundum opna ég á spjall við gervigreindina í bílnum þegar við erum að keyra.

Guðjón segir að hann hafi þá fyrir fram fært kerfinu upplýsingar – um nöfn leikskólafélaga, áhugamál og skemmtilegar staðreyndir úr lífi drengsins.

„Og svo byrjum við að spjalla í bílnum, með gervigreindina á speaker. Þetta fangar algerlega athygli hans og við spjöllum og búum til skemmtilegar sögur.“

Hann tekur fram að mikilvægt sé að stilla samtalið rétt frá upphafi. „Ég segi henni að nú eigi hún að tala við fimm ára barn og hafa viðfangsefnið spennandi, svo að hún haldi þræðinum og fangi athyglina“

Hún hefur lesið allt – en þarf skýr fyrirmæli

Guðjón segir að lykillinn að góðu samtali við gervigreindina sé að „setja hana í réttan ham“ í upphafi.

Áður er Guðjón spjallar við gervigreindina með syni sínum er hann búinn að segja henni að nú sé hún að tala við 5 ára strák og að hún þurfi að halda umræðuefninu spennandi til að fanga athygli hans. Aðsend mynd

„Við erum með allar upplýsingar heimsins þarna. Hún er búin að lesa allar bækur, allt sem hefur verið gefið út í stafrænu formi.“ 

 Það sé því mikilvægt að þrengja rammann og gefa eins skýr fyrirmæli og unnt er. Þá geti hún fókuserað betur í leitinni svo að svörin verði nákvæmari og leitin skilvirkari.  

Gervigreind sem sálfræðingur? 

Þar sem gervigreindin hafi lesið öll fræðirit þá sé til dæmis hægt að biðja hana að tala við sig sem fagmann í tilteknu fagi. 

Ég mæli til dæmis með því að fólk prófi að tala við hana eins og sálfræðing:

Segðu henni að hún sé doktor í sálfræði og eigi að ráðleggja þér út frá því. Gefðu henni upplýsingar um sjálfan þig – og biddu hana svo að hjálpa þér að vinna úr málunum. Þú getur sagt gervigreindinni allt!

Þegar Ása Ninna spyr: „En getur það ekki verið hættulegt, að segja henni allt?“ svarar Guðjón hlæjandi:

„Jú, það getur verið mjög hættulegt.“ Vísar þá Guðjón til þess sem oft hefur verið rætt um út frá mögulegum gagnaleka eða siðferðislegum spurningum um það hver hafi aðgang að upplýsingunum okkar. Því sem við setjum í einkasamtöl á netinu eða því sem við treystum gervigreindinni fyrir. 

Fólk þurfi fyrst og fremst að vera meðvitað um hvaða upplýsingar það sé að setja inn og hvað það vill fá út úr tækninni. Það sé eðlilegt að við séum á varðbergi og hræðumst þessa tækni í byrjun. 

Einnig sé eðlilegt að fólk hræðist það jafnvel að þetta hafi áhrif á vinnumarkaðinn og að sumar stéttir komi til með að missa vinnuna, en það verði ekki endilega raunin.

Í því samhengi bendir hann á að svipuð umræða hafi fylgt öllum tæknibyltingum í gegnum tíðina –  Líkt og með rafmagn eða Internetið, þá snýst þetta meira um að aðlagast og læra að nota tæknina.

Það er alltaf talað um að fólk muni missa vinnuna, en ég held að vinnan eigi bara eftir að breytast. Við eigum eftir að dýpka allt. Það sem skiptir máli núna er að mennta fólk til að nýta tæknina og tryggja að hún vinni með okkur, ekki á kostnað okkar.

Klara orðin besti vinur pabba hans

Guðjón segir föður sinn, sem er 76 ára, nota gervigreind daglega.

Hann er að tala við hana – Klöru sína – græju sem heitir Claudia. Hann ræðir bara allt um lífið og tilveruna og er að fá allskonar hugmyndir. Þetta er orðin hálfgerður vinur með hugmyndir.

Og þó móðir hans sé ekki afbrýðisama týpan, segir Guðjón með brosi:

„Hún á nú kannski alveg rétt á því að vera það í þessu tilviki, en þetta gengur allt mjög vel.“

Guðjón nefnir einnig hvernig er hægt að nota gervigreindina til undirbúa heimsókn til læknis, sem getur jafnvel vafist fyrir mörgum. 

„Pabbi fór til dæmis til augnlæknis um daginn og var með allt á hreinu áður en hann mætti.“ Hann segir lækninn hafa verið hálf hissa yfir því hversu vel undirbúinn faðir hans var og hvernig spurninga hann spurði.

Hægt er að nálgast viðtalið við Guðjón í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan. 

Klippa: Gervigreind sem sálfræðingur, uppalandi og vinur?

Persónulegur aðstoðarmaður sem hringir og fær tilboð

Spjallið berst meðal annars að framkvæmdum og allskyns upplýsingum um verkferla tengda iðnaði. Nú sé til dæmis lítið mál að spyrja gervigreindina beint um ákveðin verkefni og láta hana leiða sig í gegnum ferlið, skref fyrir skref. 

Sem dæmi ef þú ert að velta því fyrir þér hvort að hægt sé að breyta um lit á hvítum postulíns vask þá finni hún upplýsingar um það og bendir svo á fyrirtæki nálægt þér sem geta tekið verkefnið að sér.

Hún býðst þá einnig til að leiða þig í gegnum ferlið skref fyrir skref ef þú vilt gera verkefnið sjálfur og tilgreinir þá réttu efnin og tólin sem til þarf. 

Og ekki nóg með það….

„Hún getur líka hringt í þessi fyrirtæki til að spyrja um verð og annað. Og stundum er sá sem svarar á hinum endanum líka gervigreind. Svo að þetta eru hálfgerðir gervigreindar umboðsmenn sem eru farnir að vinna fyrir þig.“

Bjallaði í meintan Trump og ræddi tollamálin

Í lok þáttarins berst talið að engum öðrum en forseta Bandaríkjanna og spyr Guðjón þá hvort að hann megi hringja aðeins til Washington.

Á hinum enda línunnar svaraði rödd sem flestir kannast við – rödd Donalds Trump.

Í gegnum símtalið kynnti Guðjón sig og bar upp hugmynd um tollamál gagnvart Íslandi – og rödd „Trumps“ svaraði á sannfærandi hátt og upphófst kómískt spjall við meintan forseta Bandaríkjanna um tollamál og brúnkukrem.

Guðjón segir svona gjörning eitt af mörgum dæmum um hversu öflug gervigreindin er orðin í að líkja eftir persónueinkennum fólks, eins og rödd, málfari og töktum. 

Eins og gefi að skilja geti þetta sannarlega verið varasamt ef notað er í vafasömum tilgangi eins og svikum eða öðru og því þurfi almenningur að vera vel vakandi og fræðast um þetta öfluga tól. 


Bakarííð er Bylgjunni á dagskrá alla laugardagsmorgna frá 9 - 12


Tengdar fréttir

Gervi­greind í dag­legu lífi: 15 dæmi

Í huga flestra er gervigreind (AI) eitthvað fjarlægt og flókið sem tækninördar ræða um á ráðstefnum. Staðreyndin er hins vegar sú að gervigreindin er nú þegar orðin hluti af okkar daglega lífi og á næstu árum mun hún létta okkur lífið enn meira.

Hvernig talar maður við tölvur og hafa vélar rök­hugsun?

Við spurningunum sem eru yfirskrift þessarar greinar er ekkert eitt rétt svar, en þau sem fást við rannsóknir á gervigreind eru á meðal þeirra sem reyna að finna einhver svör. Gervigreind er orðin órjúfanlegur hluti af samfélaginu og atvinnulífinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.