Handbolti

Fær­eyjar fylgja Ís­landi á sitt fyrsta HM

Sindri Sverrisson skrifar
Færeyska landsliðið og stuðningsmenn þess settu sterkan svip á EM í desember. Nú er liðið á leið á HM.
Færeyska landsliðið og stuðningsmenn þess settu sterkan svip á EM í desember. Nú er liðið á leið á HM. EPA-EFE/GEORGIOS KEFALAS

Færeyjar halda áfram að skrá nýja og spennandi kafla í handboltasögu sína því í gær vann kvennalandslið þjóðarinnar sér sæti á HM.

Færeyjar verða því með á heimsmeistaramóti fullorðinna í handbolta í fyrsta sinn frá upphafi. Áður hafði kvennalandslið Færeyja verið með á stórmóti í fyrsta sinn þegar liðið lék á EM í desember síðastliðnum, rétt eins og karlalandslið Færeyja hafði gert á EM í ársbyrjun 2024.

Kvennalandsliðið kom sér inn á HM í gær með því að slá út Litháen í umspili. Seinni leikurinn í Jonava í gær tapaðist reyndar, 30-29, en Færeyjar höfðu unnið tíu marka sigur í Þórshöfn, 36-26, og unnu því einvígið samtals 65-56.

Færeyjar og Ísland verða því saman á HM eftir öruggan sigur Íslands gegn Ísrael í umspilsleikjunum hér á landi í síðustu viku. Þetta verður þriðja heimsmeistaramót Íslands.

Líkt og Færeyjar vann Sviss sér farseðil á HM í fyrsta sinn um helgina, með afar öruggum 68-46 sigri í einvígi sínu við Slóvakíu.

Undankeppninni í Evrópu er nú lokið og alls 30 lið komin inn á HM en tvö sæti enn laus. Mótið fer fram í Þýskalandi og Hollandi 26. nóvember til 14. desember. Dregið verður í riðla 22. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×