„Það má eiginlega segja að það sé grasrótardagskrá í dag það sem er verið að vinna að stefnubreytingum, lagabreytingum og að kjósa í forystu flokksins. Á morgun er 25 ára afmælishátíð Samfylkingarinnar en í ár eru 25 ár síðan Samfylkingin var stofnuð. Þar munum við eiga samtal um öryggis- og varnarmál og við aðila vinnumarkaðarins og einnig fagna þessum fyrstu hundrað dögum Samfylkingarinnar í ríkisstjórn,“ segir Guðmundur Ari Sigurjónsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar.
Sterkir fulltrúar landsbyggðarinnar
Klukkan fjögur í dag hefst kynning á frambjóðendum í stjórn. Kristrún Frostadóttir formaður er ein í framboði til embættisins og Guðmundur Árni Stefánsson, varaformaður, er sömuleiðis einn í framboði til endurkjörs. Tveir sækjast eftir stöðu ritara - Guðný Birna Guðmundsdóttir oddviti flokksins í Reykjanesbæ og Gylfi Þór Gíslason formaður verkalýðsmálaráðs flokksins og lögregluvarðstjóri á Vestfjörðum.
„Arna Lára sem var kjörin inn á þing gat ekki haldið áfram sem ritari flokksins samkvæmt lögum Samfylkingarinnar þannig að það eru tveir öflugir fulltrúar af landsbyggðinni að bjóða sig fram þar. Þannig að það verður spennandi að sjá hvað gerist þar.“
Jón Grétar Þórsson gjaldkeri flokksins sækist eftir endurkjöri og hefur enginn boðið sig fram á móti honum. Katrín Júlíusdóttir, fyrrverandi ráðherra fyrir flokkinn, sækist þá eftir að verða formaður framkvæmdastjórnar - sem Guðmundur Ari var áður.
Tímamót
Fundurinn verður opinn öllum á morgun - svo lengi sem pláss leyfir. Guðmundur Ari gerir ráð fyrir fjölmenni.
„Við gerum nú ráð fyrir fjölmennri samkomu og það er mikil stemning í flokknum eftir gott gengi síðustu vikur og mánuði. Þannig að við gerum ráð fyrir góðri stemningu um helgina,“ segir Guðmundur Ari.
„Þetta eru tímamót og það er ákaflega ánægjulegt að geta fagnað þeim með því að vera stærsti flokkur landsins, vera með forsætisráðherra og í ríkisstjórn.“