Skoðun

Fag­leg for­ysta skiptir öllu - Af hverju eru ekki fleiri stjórn­endur og leið­togar að kveikja á perunni?

Sigurður Ragnarsson skrifar

Í mínum störfum með fjölmörgum fyrirtækjum, stofnunum, sveitarfélögum og einstaklingum birtist skýrt hvað fagmennska í tengslum við forystu (e. leadership) er gríðarlega mikilvæg og skilar ávinningi á öllum sviðum. Skiptir þá ekki máli hvort það er til dæmis á sviði mannauðsmála, samskipta við viðskiptavini eða reksturs og fjármála. Þetta er í samræmi við fjölda rannsókna.

Í stuttu máli má segja að þjónandi forysta (e. servant leadership) rammi inn faglega forystu, eða árangursríka forystu, enda nýta mörg framsækin fyrirtæki og stofnanir sem ná afburða árangri, sérstaklega erlendis, sér hana til að ná markmiðum sínum. Þjónandi forysta sem snýst um að blanda saman að þjóna og leiða, byggir meðal annars á auðmýkt, þjónustu við aðra, skýrri framtíðarsýn og ábyrgðarskyldu. Það hefur verið sýnt fram á að þjónandi forysta hefur meðal annars jákvæð áhrif á starfsánægju auk þess að skapa og viðhalda vinnustaðamenningu þar sem ríkir traust, gagnsæi, samvinna, metnaður og fókus á sameiginlegan árangur allra hagsmunaaðila.

Heartstyles, sem gengur út á að „lifa og leiða með hjartanu“ er alþjóðlegt forystumódel og aðferðafræði sem rammar forystu inn með sambærilegum hætti. Þar er lögð er áhersla á tvær lykilvíddir árangursríkrar hegðunar:

(1) Auðmýkt sem snýst meðal annars um að þora að vera maður sjálfur og (2) umhyggja sem stendur meðal annars fyrir að vilja byggja upp sambönd og hjálpa öðrum að vaxa.

Á sama tíma er áhersla á að draga úr hegðun sem tengist tveimur öðrum víddum: (1) Sjálfmiðað og neikvætt stolt og (2) hegðun drifin af ótta, sem dregur úr eða kemur í veg fyrir hugrekki og að við getum verið við sjálf.

Lykilatriðið í þessu öllu er að fagleg forysta skilar aukinni velferð starfsfólks á sama tíma og það hjálpar fyrirtækjum og stofnunum að ná markmiðum sínum. Í rauninni græða allir, þar á meðal samfélagið. Vá, þetta hljómar næstum því eins og töfrablanda! En spurningin er; af hverju eru ekki fleiri stjórnendur og forystufólk að nýta sér þetta? Svar óskast sent til sigurdragn@unak.is

Höfundur er forseti Viðskiptadeildar Háskólans á Akureyri, Heartstyles forystuþjálfari og umsjónarmaður hlaðvarpsins „Forysta & samskipti.“




Skoðun

Sjá meira


×