Sagt er frá þessu á vef BBC. Belgorod-hérað er við landamæri Úkraínu og forsetinn segir að líkt og í Kursk-héraði í Rússlandi, þar sem Úkraínumenn hafa enn ákveðna varnarstöðu þrátt fyrir að hafa hörfað að mestu leyti, sé aðgerðum Úkraínumanna í Belgorod ætlað að verja Úkraínu og héröðin sem eiga landamæri að Rússlandi.
Rússar sögðu í síðasta mánuði að Úkraínumenn hefðu reynt innrás inn í Belgorod en að henni hafi verið hrundið. Selenskí forseti sagði hinsvegar í ávarpi til þjóðar sinnar í nótt að einn af hans æðstu hershöfðingjum hefði nú tilkynnt sér að úkraínskir hermenn séu með stöðu bæði í Belgorod og Kursk.
Talið er að þetta gagnist Úkraínumönnum á tvennan hátt, Rússar þurfi þá að beita hluta af liði sínu til að berjast við Úkraínumenn í Rússlandi og þurfa þá að hægja á sókn sinni í Donetsk en einnig gæti vígstaða í Rússlandi verið notuð við samningborðið, komi til boðaðra friðarviðræðna við Rússa sem Bandaríkjamenn hafa lagt áherslu á.