Fótbolti

Þrjár landsliðskonur fengu á­letrað úr frá KSÍ

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helga Helgadóttir og Þorvaldur Örlygsson sjást með landsliðskonunum Alexöndru Jóhannsdóttur, Söndru Maríu Jessen og Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur.
Helga Helgadóttir og Þorvaldur Örlygsson sjást með landsliðskonunum Alexöndru Jóhannsdóttur, Söndru Maríu Jessen og Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur. Knattspyrnusamband Íslands

Formaður og varaformaður Knattspyrnusambands Íslands komu færandi hendi á hótel íslenska kvennalandsliðsins í gær.

Þrír leikmenn A landsliðs kvenna í fótbolta hafa nýlega náð fimmtíu leikja áfanga og fengu flotta viðurkenningu fyrir afrek sitt í gær.

Alexandra Jóhannsdóttir lék sinn fimmtugasta leik þegar íslenska liðið lék gegn Sviss í febrúar. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Sandra María Jessen náðu síðan áfanganum í leiknum við Noreg á Þróttarvelli á föstudaginn var.

Allar fengu þær afhent áletrað úr samkvæmt reglugerð KSÍ um veitingu landsliðs- og heiðursviðurkenninga. Það voru Helga Helgadóttir varaformaður KSÍ og Þorvaldur Örlygsson formaður sem afhentu viðurkenninguna.

Sandra María er þrítug og lék sinn fyrsta landsleik á móti Ungverjum 16. júní 2012. Hún skoraði í fyrsta leiknum eitt af sex mörkum sínum fyrir íslenska landsliðið.

Alexandra er 25 ára og lék sinn fyrsta landsleik á móti Skotlandi 21. janúar 2019. Hún hefur einnig skorað sex mörk fyrir landsliðið.

Karólína Lea er yngst af þeim þremur en hún heldur upp á 24 ára afmælið sitt í ágúst. Karólína lék sinn fyrsta landsleik á móti Finnlandi 17. júní 2019. Karólína hefur skorað ellefu mörk fyrir íslenska landsliðið en hún var hársbreidd frá því að bæta við marki í jafnteflinu við Noreg.

Íslenska landsliðið er að undirbúa sig fyrir leik á móti Sviss á Þróttarvelli á þriðjudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×