Þrír leikmenn A landsliðs kvenna í fótbolta hafa nýlega náð fimmtíu leikja áfanga og fengu flotta viðurkenningu fyrir afrek sitt í gær.
Alexandra Jóhannsdóttir lék sinn fimmtugasta leik þegar íslenska liðið lék gegn Sviss í febrúar. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Sandra María Jessen náðu síðan áfanganum í leiknum við Noreg á Þróttarvelli á föstudaginn var.
Allar fengu þær afhent áletrað úr samkvæmt reglugerð KSÍ um veitingu landsliðs- og heiðursviðurkenninga. Það voru Helga Helgadóttir varaformaður KSÍ og Þorvaldur Örlygsson formaður sem afhentu viðurkenninguna.
Sandra María er þrítug og lék sinn fyrsta landsleik á móti Ungverjum 16. júní 2012. Hún skoraði í fyrsta leiknum eitt af sex mörkum sínum fyrir íslenska landsliðið.
Alexandra er 25 ára og lék sinn fyrsta landsleik á móti Skotlandi 21. janúar 2019. Hún hefur einnig skorað sex mörk fyrir landsliðið.
Karólína Lea er yngst af þeim þremur en hún heldur upp á 24 ára afmælið sitt í ágúst. Karólína lék sinn fyrsta landsleik á móti Finnlandi 17. júní 2019. Karólína hefur skorað ellefu mörk fyrir íslenska landsliðið en hún var hársbreidd frá því að bæta við marki í jafnteflinu við Noreg.
Íslenska landsliðið er að undirbúa sig fyrir leik á móti Sviss á Þróttarvelli á þriðjudaginn.