Tollurinn lagði í síðustu viku hald á tuttugu þúsund töflur, sem talið var að væru Oxíkontín, en í ljós hefur komið að töflurnar innihalda efnið Nitazene. Formaður Matthildar samtaka um skaðaminnkun sagði í gær að hún óttaðist að efnið gæti þegar verið komið í dreifingu hér á landi. Réttarefnafræðingur sem hefur undanfarin ár mælt ópíóða í fráveituvatni á Íslandi segir Nítazene sérstaklega hættulegt efni.
Lítur út eins og aðrir ópíóðar
„Þetta eru efni sem eru framleidd á sjötta áratugnum af lyfjafyrirtækjum sem eru að reyna að finna samhliður við morfín og verkastillandi efni en í rauninni eru ekki settar á markað út af því að þessi efni reyndust mjög sterk, um þúsund sinnum sterkari en morfín.“
Efnin hafi svo fyrst birst á svörtum markaði 2019. Að innbyrða þau geti valdið öndunarbælingu og feli í sér auknar líkur á ofskömmtun vegna styrks þeirra. Adam segir erfitt að greina töflurnar frá öðrum ópíóðum.
„Ef þú ert ekki með vant auga að þá lítur þetta í rauninni bara út eins og venjulegar töflur. Þetta kom í álþynnum, stimplað með lyfjafyrirtæki, með lotunúmeri og fyrningu þannig að fyrir óvanan einstakling þá lítur þetta bara út eins og töflur og þegar töflur eru í svona þynnum eða boxum eða umbúðum þá býr það til aukið traust og þarna er verið að spila með það traust.“
Adam hefur skimað eftir efninu í fráveitukerfi hér á landi undanfarin ár. Það hefur ekki fundist enn en Adam segir að það þýði þó ekki að það sé ekki komið í dreifingu. Það sé tímaspursmál og segir Adam að neytendur ópíóða þurfi að vera á varðbergi.
„Það er talað um með ofskömmtun á nítazínum að Naloxon virkar en það getur þurft fleiri en einn skammt. Útaf því að þetta eru svo gífurlega sterk efni. Þannig að fólk sé vakandi ef það er grunur um ofskömmtun, gefa nalóxon, hringja strax á sjúkrabíl og jafnvel gefa aftur Nalóxon.“