„Mér fannst við eiga skilið að vinna. Þannig að ég er smá vonsvikin, en á sama tíma var þetta mjög flottur leikur hjá liðinu. Við sköpum fullt og verjumst vel“ sagði Ingibjörg fljótlega eftir leik.
Færasköpun hefur oft verið vandamál hjá Íslandi en var það ekki í dag. Færanýtingin var hins vegar vandamál.
„Það kemur allt. Við þurfum bara að halda áfram að koma okkur í þessi færi, vera ískaldar í hausnum og þá kemur þetta. Það er ekkert annað en það.“
Þetta var fyrsti leikur Ingibjargar sem fyrirliði, hún hefur verið varafyrirliði undanfarin ár og bar bandið í fjarveru Glódísar Perlu Viggósdóttur í dag.
„Tilfinningin var mjög sérstök. Mjög góð tilfinning og auðvitað aukinn spenningur, en það bara fór um leið og leikurinn byrjaði. Ég var mjög ánægð með þetta.“

Varla verður kvartað yfir frammistöðu fyrirliðans, markið hélst hreint.
„Já, það er okkar verkefni í vörninni, en væri fínt að geta skorað líka.“
Ingibjörg sagði uppspil íslenska liðsins hafa gengið ágætlega en liðið mætti stundum halda betur í boltann í stað þess að leita langt.
„Þegar þær pressa hátt þá þýðir ekkert að vera með stuttar sendingar inn á miðjuna, betra bara að spila yfir þær. En síðan þurfum við aðeins að halda í boltann betur og styðja við eins og Karólínu til dæmis, hún er rosa mikið ein og mikil vinna fyrir hana.“
Framundan er leikur gegn Sviss næsta þriðjudag, þar sem Ísland mun freista þess að sækja fyrsta sigurinn í Þjóðadeildinni.
„Við töluðum um að ef við myndum spila svona á móti Sviss þá myndum við vinna þær. Við þurfum bara að klára færin og halda áfram að standa okkur í vörninni líka“ sagði Ingibjörg að lokum.