Tveir fundust látnir í húsi í bænum Lindesnes í morgun eftir að tilkynning barst um erjur á heimilinu. Um klukkustund síðar fannst sá þriðji látinn við bíl á bílastæði í bænum Mandal. Sá er nú grunaður um morð og segir lögreglan hann hafa klár tengsl við hina látnu. Lögreglan hefur ekki enn sagt frá því hvaða fólk um er að ræða, né hvernig fólkið dó.
Í frétt VG segir að búið sé að bera kennsl á fólkið og láta ættingja vita.
Dauði mannsins á bílastæðinu er skilgreindur sem grunsamlegur, samkvæmt VG, og er verið að rannsaka hvort enn fleiri hafi komið að málinu.
Lögreglan hefur þó sagt að Norðmenn á svæðinu hafi ekki tilefni til að óttast um öryggi sitt.
Búið er að biðja íbúa eða alla sem telji sig geta varpað ljósi á málið um að hafa samband við lögregluna í Noregi.