Fleiri en 7.500 börn yngri en fimmtán ára smituðust af berklum á Evrópusvæði Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar sem er skilgreint sem Evrópa og Mið-Asía, árið 2023. Smituðum fjölgaði um tíu prósent á milli ára.
Börn yngri en fimmtán ára voru 4,3 prósent þeirra sem smituðust af berklum innan ríkja Evrópusambandsins árið 2023 samkvæmt skýrslu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og evrópsku smitsjúkdómastofnunarinnar. Þetta var þriðja árið í röð sem berklasmitum fjölgaði á meðal barna í álfunni.
Askar Yedilbayev, ráðgjafi Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar um berkla í Evrópu, segir við Reuters-fréttastofuna að fjölgunin geti skýrst af betri greiningu á sjúkdómnum. Einnig sé þó mögulegt að hún tengist auknum fólksflutningum vegna innrásarstríðs Rússa í Úkraínu. Berklasmit eru tíðust í Rússlandi og Úkraínu í heimshlutanum.
Lækkandi framlög þjóða til baráttunnar gegn berklum er sögð auka hættu á að afbrigði sem erfitt er að eiga við skjóti upp kollinum. Bandarísk heilbrigðisyfirvöld greindu frá því í síðustu viku að fleiri en 10.000 berklasmit hefðu greinst þar árið 2023. Þau höfðu ekki verið fleiri í meira en áratug.
Berklar eru á meðal tíu algengustu dánarorsaka í heiminum. Þeir eru bakteríusjúkdómur sem leggst helst á lungu og smitast í gegnum andrúmsloft þegar sýktir einstaklingar hósta og hnerra.
Nokkur berklasmit greinast á Íslandi á hverju ári. Berklaveiki var ein helsta heilsufarsógnin í Evrópu eftir iðnbyltingu. Á þriðja tug síðustu aldar var um fimmtungur dauðsfalla á Íslandi af völdum berkla. Þá létust um 400 börn fyrir hverja hundrað þúsund íbúa á hverju ári frá 1926 til 1930.