Erlent

Út­skrifast á morgun og þarf að læra að tala upp á nýtt

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Frans páfi hefur verið á spítala frá 14. febrúar og var þar á tímabili í bráðri lífshættu.
Frans páfi hefur verið á spítala frá 14. febrúar og var þar á tímabili í bráðri lífshættu. AP/Andrew Medichini

Frans páfi verður útskrifaður af spítala á morgun eftir rúmlega tveggja mánaða spítalavist. Við tekur tveggja mánaða hvíld að læknisráði og mun hann þurfa að læra að tala upp á nýtt eftir að hafa misst röddina.

Hinn 88 ára Frans var lagður inn á Gemelli-spítala þann 14. febrúar síðastliðinn vegna alvarlegrar öndunarfærasýkingar sem leiddi til lungnabólgu í báðum lungum hans. 

Dr. Sergio Alfieri, einn lækna páfans, sagði við BBC að páfinn hafi tvisvar verið í bráðri lífshættur á síðustu fimm vikum. Hins vegar hafi ekki þurft að barkaþræða hann og var hann allan tímann árvakur að sögn Alfieri. 

Frans er þó ekki alveg heill heilsu en er í stöðugu ásigkomulagi og laus við lungnabólguna.

Endurhæfing og hvíld framundan

Páfinn mun fara með blessunarorð úr glugga sínum á spítalanum á morgun en það verður í fyrsta skipti sem hann sést meðal almennings frá því hann var lagður inn.

Sjúklingar með lungnabólgu í báðum lungum missa röddina að sögn Alfieri og mun það taka einhvern tíma fyrir hana að ná fyrri styrk. 

Kardinálinn Victor Fernandez sagði við Reuters í gær að súrefni úr öndunarvélum þurrki fólk og að páfinn muni þess vegna þurfa að læra að tala upp á nýtt.

Páfagarður greindi frá því í gær að öndun páfans og hreyfigeta væri orðin betri. Hann þyrfti ekki lengur á öndunarvél að halda á næturnar og fengi í staðinn súrefni með slöngu gegnum nefnið.


Tengdar fréttir

Heilsu páfans hrakar skyndilega

Heilsu Frans páfa, sem dvalið hefur á sjúkrahúsi í tvær vikur vegna lungnabólgu í báðum lungum, hrakaði skyndilega í gærkvöldi þegar hann fór að glíma við öndunarerfiðleika. 

Frans páfi með lungnabólgu í báðum lungum

Frans páfi er með lungnabólgu í báðum lungum og er ástand hans sagt „flókið.“ Páfinn hefur þjáðst af öndunarfærasýkingu í rúmlega viku og var hann lagður inn á spítala í Róm á föstudaginn vegna einkenna berkjabólgu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×