Skoðun

Sokkar og Downs heil­kenni

Guðmundur Ármann Pétursson skrifar

Í dag þann 21. mars er Alþjóðlegur dagur Downs heilkennis, degi sem er fagnað um víða veröld. Það eru viðburðir víða um heim á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, í bæjum og borgum og það er fólk út um allt í ósamstæðum sokkum.

Í dag er dagur til að gleðjast, dagur þar sem við fögnum fjölbreytileikanum, við gleðjumst yfir því sem við höfum og njótum.

Í dag er líka góður dagur til að hlúa að fjölbreytileikanum og muna að þó að við fögnum í dag að þá eru fleiri dagar í árinu.

Það er ekki annara að breyta og bæta samfélag okkar, það er verkefni hvers og eins okkar. Við fögnum í raun fjölbreytileikanum með okkar viðhorfum, með okkar daglegu ákvörðunum og athöfnum.

Einstaklingar með Downs heilkenni auðga samfélag okkar eins og svo margir aðrir hópar samfélagsins. Það er okkar verkefni að skapa tækifæri á vinnumarkaði, í félagsstarfi, íþróttastarfi í menningu og listum. Skapa fjölbreyttari tækifæri í framhaldsskólum, í iðnnámi og í háskóla.

Við þurfum ekki að vera að gera eitthvað fyrir fólk með Downs heilkenni. Við þurfum aðeins að gera það sem við höfum áður gert, það er að tryggja jöfn tækifæri. Þegar við sannarlega gerum það að þá auðgum við samfélag okkar, bætum kjör okkar og lífsgæði allra.

Það að ganga í ósamstæðum sokkum í dag minnir okkur mikilvægi fjölbreytileikans. Það minnir okkur einnig á mikilvægi þess að verðandi foreldrar séu meðvitaðir um þá gæfu sem það er að eignast barn með Downs heilkenni.

Við erum sem betur fer svo margbreytilegur hópur sem myndum samfélag okkar, leggjum okkur í sameiningu fram um að gera samfélagið okkar enn betra með enn virkari þátttöku einstaklinga með Downs heilkenni í leik og starfi.

Sameinumst í (ósamstæðum) sokkum og fögnum fjölbreytileikanum.

Höfundur er formaður Félags áhugafólks um Downs heilkenni.




Skoðun

Sjá meira


×