Körfubolti

Lýsir því af hverju fóturinn var tekinn af

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
LaVar Ball sagðist eitt sinn geta unnið Michael Jordan í körfubolta, einn á einn. Hann heldur því eflaust enn fram þótt á hann vanti annan fótinn.
LaVar Ball sagðist eitt sinn geta unnið Michael Jordan í körfubolta, einn á einn. Hann heldur því eflaust enn fram þótt á hann vanti annan fótinn. afp/Anthony WALLACE

Körfuboltapabbinn skoðanaglaði LaVar Ball hefur lýst því hvað varð til þess að taka þurfti annan fótinn af honum. 

Í síðasta mánuði var greint frá því að fóturinn hefði verið tekinn af Ball sem er faðir körfuboltamannanna Lonzo og LaMelo og tónlistarmannsins LiAngelo.

Í ritgerð fyrir Slam tímaritið lýsti Ball aðdraganda þess að fjarlægja þurfti fótinn. Hann segist hafa fengið sýkingu í fótinn sem hafi síðan dreift úr sér vegna þess að hann hafi ekki hugsað nógu vel um sig vegna sykursýki sem hann er með.

„Á endanum þurfti að taka fótinn af. Fyrst skáru þeir nokkrar tær af. Svo fótinn. Síðan sögðu þeir: Við þurfum að fara næstum upp að hné fyrir aðra aðgerð. Þrjár aðgerðir og það voru líka blóðgjafir. Ekki ein, ekki tvær, ekki þrjár heldur fjórar,“ skrifaði Ball.

Hann segir að synirnir hafi stutt við bakið á honum þegar útlitið var sem verst.

„Allar þessar aðgerðir og blóðgjafir fengu mig stundum til að efast um hvort það væri þess virði að ganga í gegnum þetta. En að sjá hvað strákarnir mínir eru að gera þarna úti og þeir voru líka: Pabbi, þú ert harðasti nagli sem ég þekki,“ skrifaði Ball.

„Það fékk mig til að halda áfram. Jafnvel þótt ég sé harður - ég þarf ekki mikið - var gott að fá stuðninginn frá strákunum mínum. Eitt af því sem kemur mér í gegnum þetta er að við erum öll saman. Þegar þeir eru allir saman er ég sterkur.“

Minna hefur borið á Ball síðustu ár en hann var mjög áberandi um tíma, ekki síst fyrir ótrúlega trú á eigin ágæti og getu sonanna. Þá stofnaði Ball íþróttavörufyrirtækið Big Baller Brand.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×