Unnið hefur verið að því að skipta um þak á Landakotskirkju frá því í fyrra. Kirkjan fær hæsta styrkinn úr húsafriðunarsjóði vegna framkvæmdanna í ár. Tilkynnt var um styrkhafana í dag.
Næsthæsta styrkinn hlaut Álftaneskirkja á Mýrum í Borgarfirði, fimm milljónir króna. Níu önnur verkefni hlutu fjögurra milljóna króna styrki hvert, þar á meðal Norræn húsið, verkamannabústaðirnir, Duus-hús í Keflavík og Húsavíkurkirkja.
Alls var úthlutað 265,5 milljónum króna úr sjóðnum til 178 verkefna í ár. Minjastofnun bárust 242 umsóknir um styrki. Úthlutunarupphæðin lækkaði um 32,1 milljón króna á milli ára eru styrkirnir ársins í ár því sagðir almennt lægri en ársins 2024.
Sjóðurinn styrkti verkefni sem tengdust 83 friðuðum húsum og mannvirkjum um 103,4 milljónir króna. Friðlýstar kirkjur fengu 35 styrki, samtals að upphæð 75,3 milljóna króna. Tuttugu og átta friðlýst hús og mannvirki fengu 51 milljón króna, nítján önnur hús og mannvirki 14,3 milljónir og rannsóknir og húsakannanir voru styrktar um 21,5 milljónir króna.
Hæsti styrkurinn vegna rannsókna og kannana rann til verkefnis um íslenskra sundlaugabyggingar frá fyrri hluta 20. aldar.