Helstu atvik úr leiknum í dag má nú sjá á Vísi, í spilaranum hér að neðan. Mörkin eru í fyrra myndbandinu og rauða spjaldið í því seinna.
KR komst yfir eftir tæplega hálftíma leik eftir skelfileg mistök Guðmundar Kristjánssonar. Hann var með boltann í eigin vítateig og spyrnti honum beint í Eið Gauta Sæbjörnsson sem þar með skoraði sitt þriðja mark í tveimur leikjum fyrir KR eftir komuna frá HK.
Samúel Kári Friðjónsson, sem kom til Stjörnunnar úr atvinnumennsku í vetur, var rekinn af velli á 40. mínútu fyrir afar fólskulega tæklingu í Gabríel Hrannar Eyjólfsson úti við hliðarlínu. Mikil reiði varð vegna atviksins og tók sinn tíma að róa menn niður og fór gula spjaldið tvisvar á loft.
Manni færri náðu Stjörnumenn að jafna metin með marki Emils Atlasonar úr víti á 55. mínútu, eftir að Gyrðir Hrafn Guðbrandsson braut á Benedikt Warén sem slapp í gegnum vörn KR eftir stungusendingu. Gyrðir fékk gult spjald en einhverjir vildu sjá rauða spjaldið fara þar aftur á loft.
Gyrðir hélt hins vegar áfram leik og kom KR yfir örfáum mínútum síðar, með fríum skalla í kjölfarið á hornspyrnu.
Þriðja mark KR-inga skoraði svo Róbert Elís Hlynsson, tæplega 18 ára gamall leikmaður sem kom til KR frá ÍR í vetur, með gullfallegu skoti rétt framan við miðjuhringinn og yfir Árna Snæ Ólafsson í marki Stjörnunnar.