Fjármálamarkaðir um allan heim hafa titrað í dag í kjölfar ákvörðunar Donalds Trump Bandaríkjaforseta um hækkaða tolla gagnvart Kína, Mexíkó og Kanada.
Markaðurinn hér heima fór ekki varhluta af tíðindunum en sjaldséður alrauður dagur var í Kauphöllinni. Ekkert félag slapp við lækkun hlutabréfaverðs en fiskeldisfélagið Kaldvík slapp billegast með lækkun upp á 0,39 krónur í örviðskiptum upp á þrjár milljónir króna.
Úrvalsvísitalan ekki lægri í þrjá mánuði
Úrvalsvísitalan, sem lækkaði um 3,95 prósent í dag og stendur í 2.747,71 stigi, hefur ekki verið lægri síðan í byrjun desember í fyrra.
Gengi hlutabréfa í Oculis, sem hefur hækkað verulega síðan félagið var skráð á markað í apríl í fyrra, lækkaði mest allra félaga í dag eða um 7,3 prósent. Félagið er bæði skráð á markað hér á landi og í Bandaríkjunum. Annað slíkt félag er Alvotech en gengi þess lækkaði næstmest eða um 6,31 prósent.
Gengi bréfa í þriðja tvískráða félaginu, JBT Marel, lækkaði heldur minna en þó um 4,89 prósent og það í viðskiptum upp á aðeins tíu milljónir króna. Velta með bréf hinna tveggja var talsvert meiri.
Lítið hreyfing með bréf Play en talsverð lækkun
Icelandair lækkaði þriðja mest allra félaga, um 6,3 prósent í ríflega 100 milljóna króna viðskiptum. Hitt flugfélagið, Play, lækkaði litlu minna, um 6,08 prósent en það í nánast engum viðskiptum.
Þá má nefna að gengi bréfa námafélagsins Amaroq á Grænlandi lækkaði um 5,65 prósent í dag.