Sjór flæddi yfir varnargarða í Reynisfjöru í gær vegna illviðris og stórstreymis. Gekk sjórinn inn á neðra bílastæði ferðamanna á svæðinu með þeim afleiðingum að vegfarendur áttu fótum sínum fjör að launa til að komast frá öldunum. Reynisfjöru var í kjölfarið lokað en hún var opnuð aftur klukkan ellefu í dag.
Garðar Már Garðarsson aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi segir það mikið mildi að ekki fór verr.
„Við höfum ekki fengið neinar fréttir af slysum en það voru bílar þarna sem að sjór gekk yfir og flæddi vel í kringum á neðra bílastæðinu. Það var talsverð hætta á ferðum þarna, það voru grjóthnullungar þarna sem voru á stærð við manneskju sem komu með öldunum og inn á bílastæðið.“
Ekki hafi borist neinar tilkynningar um skemmdir á bílum en á myndskeiði frá vettvangi má sjá sjó ganga yfir nokkra bíla á bílastæðinu.
„Þetta hefur gerist áður að sjór gangi svona langt inn á. Samkvæmt ábúendum á svæðinu, eftir okkar bestu upplýsingum, er þetta það mesta sem þeir hafa séð.“
Garðar ítrekar fyrir fólki að fara varlega á svæðinu.
„Það er gott að það fór ekki verr og nú sem endranær, hvetjum við fólk til að fara varlega þarna í Reynisfjöru. Þetta er hættulegur staður og fjölmennur og það má teljast mildi að ekki hafi verið fleiri alverleg slys þarna en Þau eru of mörg nú þegar.“