Erlent

Óbólusett barn lést vegna mis­linga

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Covenant barnasjúkrahúsinu í Lubbock Texas, þar sem umrætt barn dó.
Frá Covenant barnasjúkrahúsinu í Lubbock Texas, þar sem umrætt barn dó. AP/Mary Conlon

Ráðamenn í Bandaríkjunum tilkynntu í dag að ung og óbólusett barn hefði látið lífið vegna mislinga. Þetta er fyrsta dauðsfallið í mislingafaraldri í Texas sem hófst í lok síðasta mánaðar og fyrsta dauðsfallið vegna mislinga í Bandaríkjunum frá 2015.

Í heildina er vitað til þess að 124 hafi smitast í níu sýslum Texas. Þar að auki eru níu smitaðir af mislingum  í Nýju Mexíkó, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Heilbrigðismálayfirvöld í Texas gáfu út í dag að barnið hefði verið flutt á sjúkrahús í síðustu viku en frekari upplýsingar hafa ekki borist.

Faraldurinn í Texas er sá stærsti í ríkinu í tæpa þrjá áratugi. Robert F. Kennedy yngri, heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna, sagði í dag að ráðuneytið væri að fylgjast með ástandinu, sem hann lýsti sem „ekki óeðlilegu“.

Kennedy, sem hefur lengi dreift samsæriskenningum um bóluefni, lýsti því yfir fyrr í þessum mánuði að nefnd myndi taka bólusetningar gegn mislingum og öðrum sjúkdómum til skoðunar.

Hlutfall bólusettra barna hefur dregist saman í Bandaríkjunum á undanförnum árum. Flest ríki eru komin undir 95 prósenta hlutafall barna á leikskólaaldri en það hlutfall er talið mikilvægt til að mynda hjarðofnæmi.

AP segir þennan faraldur í Texas að mestu bundinn við samfélag strangtrúaðra mennoníta.

Texas Tribune hefur eftir embættismönnum að margir hafi látið bólsetja sig á svæðinu þar sem faraldurinn geisar á undanförnum dögum.


Tengdar fréttir

RFK verður heilbrigðisráðherra

Öldungadeild Bandaríkjaþings hefur samþykkt tilnefningu Robert F. Kennedy yngri til embættis heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna. Atkvæðagreiðslan á þinginu fór 52-48 en Mitch McConnell, fyrrverandi leiðtogi Repúblikanaflokksins í öldungadeildinni, var eini meðlimur flokksins sem greiddi atkvæði gegn tilnefningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×