Upp­gjörið: Sviss - Ís­land 0-0 | Engin flug­elda­sýning í fyrsta leik

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sveindís Jane fékk ekki úr miklu að moða í fremstu víglínu.
Sveindís Jane fékk ekki úr miklu að moða í fremstu víglínu. Gabor Baumgarten / GocherImagery/Future Publishing via Getty Images

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta gerði markalaust jafntefli er liðið heimsótti Sviss í fyrstu umferð Þjóðadeildarinnar í knattspyrnu í kvöld.

Eftir nokkuð rólegar upphafsmínútur, sem liðin nýttu til að fóta sig inni á vellinum, tók íslenska liðið við sér og var mun sterkari aðilinn stærstan hluta fyrri hálfleiks.

Íslensku stelpurnar komu sér oft og tíðum í fínustu stöður, en náðu hins vegar ekki að skapa sér nein opin marktækifæri. Liðið skapaði sér nokkur hálffæri og átti fjöldann allan af skotum að marki Svisslendinga, án þess þó að reyna almennilega á Elviru Herzog í markinu.

Svisslendingar sköpuðu sér lítið og íslenska vörnin stóð vel þegar heimakonur komu sér í góðar stöður. Hvorugu liðinu tókst að skora fyrir hlé og staðan því enn 0-0 þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja.

Síðari hálfleikur var svo að miklu leyti svipaður og sá fyrri. Liðin sköpuðu sér lítið af færum og nú var íslenska liðið ekki jafn mikið með boltann og fyrir hlé.

Þess í stað komst svissneska liðið í fleiri hættulegar stöður, en náði þó ekki að ógna marki Íslands af neinu viti. Þéttur varnarmúr Íslands stóð vel.

Þrátt fyrir að svissneska liðið hafi heilt yfir verið líklegra til árangurs í seinni hálfleik var það þó íslenska liðið sem fékk besta færið eftir hlé. Sveindís Jane komst þá á sprettinn og bjó sér til skotfæri, en lyfti boltanum yfir markið.

Þar fyrir utan buðu liðin ekki upp á nein alvöru færi í leik kvöldsins og niðurstaðan því að lokum bragðdauft markalaust jafntefli.

Atvik leiksins

Þegar rétt rúmar tíu mínútur voru til leiksloka áttu heimakonur skot fyrir utan teig. Boltinn var langt frá því að fara á markið því Dagný Brynjarsdóttir, sem var að leika sinn fyrsta landsleik í 22 mánuði, varð fyrir því óláni að fá boltann af öllu afli í höfuðið. Dagný þurfti á aðhlynningu að halda og var í kjölfarið tekin af velli. Ekki beint draumaendurkoma í landsliðið, en hún bar sig vel á leið af velli.

Þess utan gerðist í raun ekki neitt markvert í leiknum.

Stjörnur og skúrkar

Eftir leik sem þennan er erfitt að velja einhverja leikmenn sem standa upp úr, hvort sem það er af jákvæðum eða neikvæðum ástæðum. Íslenska vörnin stóð vel í leik kvöldsins og sá til þess að góðar stöður og hálffæri Svisslendinga urðu að engu.

Dómarinn

Jana Adamkova og tékkneska dómarateymið þurfti ekki að taka margar stórar ákvarðanir í leik kvöldsins. Þær tékknesku komust því vel frá frekar einföldu verkefni.

Stemning og umgjörð

Eins og áður hefur komið fram var leikurinn vægast sagt bragðdaufur og stemningin var eftir því. Svisslendingarnir í stúkunni létu aðeins heyra í sér í upphafi leiks, en eftir því sem leið á minnkaði áhugi viðstaddra.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira