Sport

Sætti sig við þriggja mánaða bann eftir nuddið

Sindri Sverrisson skrifar
Jannik Sinner vann opna ástralska mótið í janúar.
Jannik Sinner vann opna ástralska mótið í janúar. Getty/James D. Morgan

Ítalinn Jannik Sinner, efsti maður heimslistans í tennis, hefur komist að samkomulagi við WADA, alþjóða lyfjaeftirlitið, um að taka út þriggja mánaða bann vegna tveggja jákvæðra lyfjaprófa á síðasta ári.

Sinner, sem vann Opna ástralska mótið í síðasta mánuði, verður því í banni frá 9. febrúar til 4. maí. Það þýðir að hann missir ekki af neinu risamóti og getur spilað á Opna franska mótinu 19. maí.

WADA hafði áfrýjað til CAS, alþjóða íþróttadómstólsins, eftir að alþjóða heilindastofnun tennisíþróttarinnar, ITIA, komst að þeirri niðurstöðu að ekki bæri að refsa Sinner. WADA kallaði eftir tveggja ára keppnisbanni en hefur nú tekið skýringar Sinner gildar og samþykkt að láta þriggja mánaða bann duga.

Sinner féll á lyfjaprófi í tvígang í mars á síðasta ári, þegar hann tók þátt í Indian Wells-mótinu. Hann hefur sagt að efnið „clostebol“, sem er bannað, hafi fundist vegna þess að hann hafi óvart fengið það á sig í meðferð hjá sjúkraþjálfara.

WADA segir ljóst að Sinner, sem unnið hefur þrjú risamót á ferlinum, hafi ekki ætlað sér að svindla, að efnið hafi ekki stuðlað að auknum árangri hans, og að þetta hafi gerst án hans vitneskju vegna gáleysis starfsmanns úr teymi hans. Sinner verði hins vegar að bera sjálfur ábyrgð á því gáleysi.

Sinner kveðst í yfirlýsingu hafa viljað semja um þriggja mánaða bann til að losna loksins við mál sem hangið hafi yfir honum og hefði gert það áfram, mögulega út þetta ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×