Innlent

Skipan ráð­herra blessuð af kæru­nefnd

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ástráður, Aldís og Guðmundur Ingi fyrrverandi ráðherra jafnréttismála.
Ástráður, Aldís og Guðmundur Ingi fyrrverandi ráðherra jafnréttismála. Vísir

Guðmundur Ingi Guðbrandsson þáverandi félags- og vinnumarkaðsráðherra braut ekki jafnréttislög þegar hann skipaði Ástráð Haraldsson sem ríkissáttasemjara árið 2023. Þetta kemur fram í úrskurði kærunefndar jafnréttismála.

Aldís Guðný Sigurðardóttir var á meðal sex umsækjenda um starfið sem Ástráður Haraldsson var skipaður í.

Um­sækj­endur um em­bættið voru eftir­taldir:

  • Al­dís Guð­ný Sigurðar­dóttir, lektor við við­skipta­deild HR og for­stöðu­maður MBA-náms
  • Ást­ráður Haralds­son, settur ríkis­sátta­semjari
  • Hilmar Már Gunn­laugs­son, lyfja­fræðingur
  • Maríanna Hug­rún Helga­dóttir, for­maður og fram­kvæmda­stjóri Fé­lags ís­lenskra náttúru­fræðinga
  • Mu­hammad Abu Ayub, vakt­stjóri
  • Skúli Þór Sveins­son, sölu­maður

Aldís og Ástráður voru bæði metin mjög vel hæf af hæfnisnefnd og fór lögmaður Aldísar yfir málið, frá þeirra sjónarhorni, í aðsendri skoðunargrein á Vísi í ágúst í fyrra. Það væri mat Aldísar að hæfasti umsækjandinn hefði ekki verið valinn.

Taldi Aldís að ráðherra hefði mismunað sér á grundvelli kyns en samkvæmt lögum væri sú skylda á atvinnurekendur að vinna markvisst að því að bæta stöðu kvenna á vinnumarkaði. Máli sínu til stuðnings nefndu þær að í rúmlega fjörutíu ára sögu ríkissáttasemjara hefði aðeins ein kona gegnt embættinu.

„Mér finnst rauði þráðurinn í gegnum allt þetta mál, þegar ég fer yfir gögnin, vera svolítið þannig að það hafi vísvitandi verið gert lítið úr hæfni hennar, reynslu og þekkingu á vinnumarkaði. En að sama skapi er verið að gera meira úr reynslu núverandi ríkissáttasemjara, sem fékk embættið,“ sagði Erna Guðmundsdóttir, lögmaður Aldísar, í samtali við Vísi í janúar í fyrra.

Erna spurði í aðsendu greininni hvort jafnrétti hefði verið haft af ráðherra jafnréttismála? Kærunefndin svarar þeirri spurningu játandi.

Í niðurstöðu nefndarinnar segir að Aldísi hafi ekki sýnt fram á að henni hefði verið mismunað á grundvelli kyns. Niðurstaða ráðherra hefði verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum. Ástráður hefði fengið fleiri heildarstig við mat á umsóknargögnum, fleiri heildarstig eftir viðtöl. Þannig hafi hann fengið fleiri stig fyrir tvo matsþætti af ellefu en Aldís fleiri fyrir einn matsþátt.

Aldís hefði mikla sérþekkingu í samningatækni og samningafræði sem og við úrlausn deilumála. Ástráður hefði á móti mikla sérþekkingu í vinnumarkaði og sáttarstörf í vinnudeilum. Þá hefði hann tiltekina reynslu í starfinu en hann hafði verið settur ríkissáttasemjari þegar staðan var auglýst.

Þá var ekki fallist á kröfu Aldísar að ríkið greiddi málskostnað hennar.

Úrskurð nefndarinnar má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×