Íslenski hornamaðurinn Dagur Gautason skipti óvænt á dögunum úr norska félaginu Arendal í franska stórliðið Montpellier og í kvöld var nýja liðið hans að spila í Evrópudeildinni.
Dagur lék sinn fyrsta leik um síðustu helgi og skoraði þá fjögur mörk úr sex skotum í deildarsigri á Aix.
Montpellier sýndi styrk sinn í Evrópudeildinni í kvöld með því að vinna svissneska liðið HC Kriens-Luzern með fjögurra marka mun, 31-27, en þetta var fyrsti leikur liðanna í milliriðli.
Dagur skoraði þrjú mörk úr þremur skotum í leiknum í kvöld en þau komu öll á lokakafla leiksins. Þetta var frumraun stráksins í Evrópudeildinni og hún tókst vel.
Það gekk ekki eins vel hjá Íslendingaliðinu VfL Gummersbach sem tapaði á heimavelli á móti Flensburg-Handewitt. Flensburg vann leikinn 36-31 en Gummersbach var 19-18 yfir í hálfleik.
Seinni háfleikurinn var hrein hörmung en Flensburg vann hann 18-12.
Guðjón Valur Sigurðsson þjálfar lið Gummersbach og landsliðsmaðurinn Elliði Snær Viðarsson var með þrjú mörk úr fjórum skotum í leiknum í kvöld. Julian Köster var markahæstur hjá liðinu með sjö mörk.
Johannes Golla var óstöðvandi á línunni hjá Flensburg með tíu mörk úr ellefu skotum.