Doncic er að komast af stað að nýju eftir meiðsli og lék sinn fyrsta leik með Lakers í gær, eftir komuna óvæntu frá Dallas Mavericks, þegar Lakers unnu Utah Jazz á heimavelli, 132-113.
Fyrsta leik Doncic hafði verið beðið með eftirvæntingu og sáu forráðamenn Lakers til þess að allir gætu verið í treyjum merktum honum á leiknum.
Stjörnurnar voru mættar til að berja Doncic augum og í höllinni í gær mátti meðal annars sjá Adele, Will Ferrell og þá Flea og Chad Smith úr Red Hot Chili Peppers, auk Dallas Mavericks goðsagnarinnar Dirk Nowitzki.
Rétt áður en leikurinn í gærkvöld hófst söfnuðust leikmenn Lakers saman þar sem James beindi orðum sínum að Doncic:
„Luka, vertu fokking þú sjálfur. Ekki reyna að passa inn í, taktu fokking yfir,“ sagði James í lauslegri þýðingu.
"Luka, be your f---ing self. Don't fit in, fit the f--- out."
— SportsCenter (@SportsCenter) February 11, 2025
-LeBron to Luka 🗣️ pic.twitter.com/qj8Tbk8M8R
Doncic hafði þó, á sinn mælikvarða, frekar hægt um sig og spilaði minna en vanalega eða rúmar 23 mínútur. Á þeim tíma skoraði hann 14 stig, tók fimm fráköst og gaf fjórar stoðsendingar.
James var stigahæstur Lakers með 24 stig, sjö fráköst og átta stoðsendingar. Austin Reaves skoraði 22 stig og Rui Hachimura 21 stig.
Þetta var fyrsti leikur Doncic eftir að hann meiddist í kálfa um jólin. Hann þurfti ekkert að spila í fjórða leikhlutanum í gær enda var sigur Lakers öruggur og liðið hefur nú unnið tólf af síðustu fjórtán leikjum sínum. Lakers eru í 4. sæti vesturdeildarinnar með 32 sigra og 19 töp