Íslenski boltinn

Framarar lausir við Frambanann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þorsteinn Aron Antonsson er ánægður í HK og er nú með samning við félagið næstu þrjú tímabil.
Þorsteinn Aron Antonsson er ánægður í HK og er nú með samning við félagið næstu þrjú tímabil. HK

HK hefur tryggt sér þjónustu Þorsteins Arons Antonssonar næsta sumar en hann var á láni hjá félaginu í Bestu deildinni síðasta sumar.

HK og Valur hafa nefnilega komist að samkomulagi um félagaskipti Þorsteins Arons Antonssonar og gerir hann samning við HK út leiktíðina 2027.

Þorsteinn er öllum hnútum kunnugur í Kórnum en hann lék með liðinu seinasta sumar við góðan orðstír.

HK féll í Lengjudeildina síðasta haust um mun því Þorsteinn Aron reyna að hjálpa liðinu að vinna sér aftur sæti í deild þeirra bestu.

Framarar eru örugglega manna fegnastir að Þorsteinn Aron spili ekki í Bestu deildinni í sumar.

Þorsteinn skoraði nefnilega sigurmarkið í öllum þremur leikjum HK og Fram í Bestu deildinni síðasta sumar. Það voru líka einu mörkin hans í deildinni.

Þorsteinn er 21 árs miðvörður, fæddur árið 2004, sem er uppalinn hjá Selfossi en hefur einnig leikið með Val, Stjörnunni og verið í akademíu hjá Fulham. Hann á að baki átján leiki fyrir yngri landslið Íslands og var í 21 árs landsliðinu í nóvember síðastliðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×