Erlent

Sau­tján ára stúlka lést í hákarlaárás

Samúel Karl Ólason skrifar
Ekki liggur fyrir hverslags hákarl um er að ræða. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Ekki liggur fyrir hverslags hákarl um er að ræða. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Getty/Auscape

Sautján ára stúlka lét lífið þegar hún var bitin af hákarli undan ströndum Ástralíu í morgun. Þetta er í annað sinn sem banvæn hákarlaárás á sér stað á svæðinu á þessu ári.

Stúlkan var á sundi við Bribie-eyju við austurströnd Ástralíu þegar hákarl beit hana, samkvæmt frétt Ríkisútvarps Ástralíu. Nánar tiltekið var hún á Woorim-ströndinni svokölluðu en vitni segja árásina hafa gerst í grunnu vatni.

Hákarlinn mun hafa bitið hana í aðra höndina. Árásin átti sér stað um klukkan fimm að staðartíma.

Þessi strönd er sögð vinsæl meðal heimamanna og ferðamanna þar sem fólk syndir, veiðir og fer á brimbretti. Nokkuð mikið er um hákarla á þessu svæði en sjaldan svo nærri landi. Þá eru hákarlavarnir á svæðinu en ekki er vitað um hverslags hákarl er að ræða.

Þetta er þriðja hákarlaárásin undan ströndum Queensland, norðausturhluta Ástralíu, á undanförnum þremur mánuðum og önnur banvæna hákarlaárásin á innan við mánuði.

Margir urðu vitni að árásinni þar sem stúlkan var með vinum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×