Það blés ekki byrlega fyrir gestina frá Lundúnum þegar Arnaut Danjuma kom Girona yfir á 28. mínútu. Tíu mínútum síðar hafði Jorginho hins vegar jafnað metin fyrir Skytturnar af vítapunktinum.
Aðeins fjórum mínútum síðar hafði Ethan Nwaneri komið gestunum yfir eftir undirbúning Leandro Trossard. Staðan 1-2 í hálfleik. Reyndust það lokatölur þar sem mark var dæmt af heimamönnum vegna rangstöðu þegar stundarfjórðungur lifði leiks og þá brenndi Raheem Sterling af vítaspyrnu í uppbótartíma.
Arsenal endar meðal efstu átta liða Meistaradeildarinnar og fer þar með beint í 16-liða úrslit. Liðin í 9. til 24. sæti fara í umspil um sæti í 16-liða úrslitum.