Brösuglega hefur gengið að ná sáttum í yfirstandandi kjaradeilu kennara og ríkis og sveitarfélaga. Fréttastofa hefur fjallað um kjaradeiluna en nýjustu fréttir af henni má nálgast hér.
Þar sem verkfallsaðgerðir eru mismunandi eftir svæðum og skólastigum hefur ákveðinn glundroði skapast í hinum ýmsu Facebookhópum, spjallþráðum og kaffisstofum vinnustaða, varðandi hvenær verkföllin hefjist, hvar og hve lengi þau vara. Eftirfarandi samantekt kann að vinna bót á því.
Ótímabundin í leikskólum
Öll fyrirhuguð verkföll leikskólakennara eru ótímabundin og hefjast að óbreyttu þann 1. febrúar. Leikskólakennarar í eftirfarandi leikskólum munu leggja niður störf.
- Leikskóli Seltjarnarness
- Leikskólinn Holt í Reykjanesbæ
- Leikskólinn Drafnarsteinn í Reykjavík
- Leikskólinn Ársalir á Sauðárkróki
- Leikskóli Snæfellsbæjar
- Hulduheimar á Akureyri
- Höfðaberg í Mosfellsbæ
- Lundaból í Garðabæ
- Lyngheimar í Reykjavík
- Lyngholt á Reyðarfirði
- Óskaland í Hveragerði
- Rauðhóll í Reykjavík
- Stakkaborg í Reykjavík
- Teigasel á Akranesi
Þess má geta að verkföll stóðu yfir í leikskóla Seltjarnarness, Holti, Drafnarsteini, og Ársölum fyrir áramót en var frestað á miðnætti 29. nóvember 2024.
Tímabundin í grunnskólum
Fyrirhuguð verkföll grunnskólakennara eru aftur á móti öll tímabundin. Að óbreyttu leggja kennarar í eftirfarandi þremur skólum niður störf á tímabilinu 1. til 21. febrúar.
- Árbæjarskóli í Reykjavík
- Garðaskóli í Garðabæ
- Heiðarskóli í Reykjanesbæ
Verkföll vara fimm dögum lengur, eða frá 1. til 26. febrúar, í eftirfarandi skólum, að óbreyttu.
- Egilsstaðaskóli á Egilsstöðum
- Engjaskóli í Reykjavík
- Grundaskóli á Akranesi
- Lindaskóli í Kópavogi
Enn óljóst með framhalds- og tónlistarskóla
Enn hafa ekki borist upplýsingar um umfang fyrirhugaðra verkfallsaðgerða framhalds- og tónlistarkennara. Á vef Kennarasambandsins, þar sem ofangreindra upplýsinga var aflað, segir að viðkomandi aðildarfélög muni hefja undirbúning aðgerða þann 1. febrúar en þá lýkur friðarskyldu sem sett var á deiluaðila eftir að verkföllum var frestað þann 29. nóvember.
Fram kemur að greint verði frá fyrirhuguðum aðgerðum í framhalds- og tónlistarskólum þegar upplýsingar liggja fyrir.