Þýskaland mátti þola stórt tap gegn Danmörku í fyrsta leik sínum í milliriðli I og því kom ekkert annað en sigur gegn Ítalíu til greina ætluðu Alfreð og hans menn sér í 8-liða úrslitin.
Ítalía var vissulega sýnd veiði en ekki gefin en á endanum vann Þýskaland sjö marka sigur, lokatölur 34-27 lærisveinum Alfreðs í vil.
Timo Kastening var markahæstur hjá Þýskalandi með sex mörk. Þar á eftir komu Franz Semper og Julian Koster með fimm mörk hvor. Hjá Ítalíu skoraði Leo Prantner átta mörk.
Þýskaland nú með sex stig í 2. sæti milliriðilsins á meðan Ítalía er með fjögur stig í 3. sætinu.
Frakkland er áfram með fullt hús stiga eftir öruggan sigur á Hollandi, lokatölur 35-28. Frakkland er búið að tryggja sér toppsæti milliriðils II og þar með sæti í 8-liða úrslitum.