„Stemningin var blómleg og blússandi. Það var svo magnað að finna fyrir áhuga gesta á Hæ blóm eftir þrotlausa vinnu síðustu vikur og mánuði að koma þessu í gang,“ segir Bjarmi Fannar í samtali við blaðamann.
„Fólk hafði augljósan áhuga á blómunum og fallegum vöndum en ekki síður vandaðri gjafavöru sem við erum að taka inn og selja, eins og kaffi frá Korg og súkkulaði frá Ellu Stínu.“
Mamma Bjarma Fannars henti í kræsingar og nokkrir tónlistarmenn stigu á stokk.
„Það var mikill heiður að fá mergjaðar söng- og leikkonur til að koma fram í opnuninni. Við viljum halda áfram að vera með viðburði í Hæ Blóm af ýmsu tagi og efla þannig menningu í hverfinu, prufa nýja hluti og halda stemningunni gangandi,“ segir Bjarmi Fannar en búðin er staðsett í Grímsbæ.
Á opnuninni komu fram Sigríður Eyrún Friðriksdóttir, Margrét Eir, Urður Bergsdóttir, Þórey Birgisdóttir og Bjarni Snæbjörnsson. Hér má sjá vel valdar myndir frá teitinu:

















