„Bara mjög ánægjulegt. Við erum mjög ánægð með að þetta sé komið í höfn. Við horfum björtum augum fram veginn,“ segir Þorvaldur.
Hvaða eiginleikum er Arnar gæddur sem gera hann góðan kost í þetta starf?
„Ef við horfum á tíma hans hjá Víkingi Reykjavík þá sjáum við hvernig hann hefur tekið utan um leikmannahóp sinn, eldri sem og yngri leikmenn og náð úrslitum. Hvernig hann hefur fengið fólk í lið með sér, bæði stuðningsmenn Víkings sem og aðdáendur aðra. Mér finnst það vera til fyrirmyndar og hann hefur heldur betur náð árangri líka. Hann er akkúrat það sem við vorum að leita eftir.“
Svo býr Arnar að landsliðsferli sem leikmaður, þekkir landsliðsumhverfið.
„Það hjálpar alltaf. Er kostur. Hann þekkir það á sama tíma hvernig er að vera inn á vellinum, veit hvernig menn hugsa. Það er allavegana ekki verra fyrir hann að hafa þessa reynslu á bakinu.“
En var Arnar efsti kostur á blaði KSÍ?
„Það má orða þetta fyrst þannig að þessir þrír þjálfara sem að við ræddum við höfðu allir eiginleika og kosti sem eru þess eðlis að ég myndi treysta þeim öllum fullkomlega fyrir þessu starfi. Alveg eitt hundrað prósent. Við vorum virkilega heppin, ég og stjórn KSÍ, að hafa náð að tala við svo góða einstaklinga.
Þetta æxlaðist þannig að Freyr endaði á því að taka við Brann, frábært fyrir hann og við erum mjög stolt af því líka Íslendingar að við séum með þjálfara í efstu deild Noregs. Hann á svo sannarlega eftir að standa sig vel þar. Arnar er sá kostur sem við völdum í lokin, við ákváðum að ganga til samninga við hann og náðum góðum samningum þar. Við erum mjög sátt við það.“
KSÍ samdi við Arnar en þurfti svo að landa samkomulagi við Víking Reykjavík til þess að losa Arnar undan samningi hans í Fossvoginum. Þær viðræður gengu að sögn Þorvalds ljómandi vel.
„Menn eru, eins og alltaf, að reyna semja og komast að samkomulagi. Í lokin náðum við samkomulagi sem við erum sáttir við. Við höldum svo áfram veginn og erum þakklát Víkingum fyrir að leyfa okkur að fá Arnar til liðs við landsliðið. Ég held að þeir séu líka stoltir af því. Arnar hefur gert vel fyrir Víking Reykjavík og við óskum bara félaginu góðs gengis áfram.“
Á hvaða forsendum verður árangur Arnars í starfi svo metinn í framhaldinu?
„Við eru náttúrulega í þeim ágæta bransa að við þurfum úrslit. Úrslit breyta öllu. Arnar gerir sér alveg grein fyrir því og hefur gert það hingað til á sínum ferli í fótboltanum. Við þurfum líka að horfa til þess að við erum að búa til lið og liðsheild. Ná fram því besta úr þeim leikmönnum sem standa okkur til boða og gera þá betri. Ég hef trú á því að Arnar geti náð því. Ég vænti mikils af honum.“