Leik lokið: ÍR - Stjarnan 103-101 | Toppliðið tapaði eftir fram­lengingu í Breið­holti

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Bjarni Guðmann tók síðasta skot leiksins en klikkaði. 
Bjarni Guðmann tók síðasta skot leiksins en klikkaði.  vísir/Anton

Topplið Stjörnunnar þurfti að sætta sig við þriðja tapið á tímabilinu þegar liðið heimsótti ÍR í Skógarselið. Heimamenn unnu leikinn 103-101 eftir framlengingu. 

ÍR byrjaði af krafti í kvöld, heimamenn voru greinilega vel gíraðir í slag gegn toppliðinu og hafa væntanlega komist í enn betri gír þegar þeir áttuðu sig á því að Stjarnan væri án Orra Gunnarssonar og Viktors Jónasar Lúðvíkssonar.

Þrátt fyrir að sakna þeirra tveggja var Stjarnan hins vegar í fínu stuði, þeir sýndu þess merki í fyrsta leikhluta og tóku svo völdin á vellinum í öðrum leikhluta. Snögghitnuðu þá og gerðu ÍR-ingum lífið leitt fyrir utan þriggja stiga línuna.

Stjarnan negldi fimm þristum niður í öðrum leikhluta en ÍR aðeins einum, sem skilaði tólf stiga mismuni á stigatöflunni í hálfleik, 38-50.

Borche Illievski tók tvö leikhlé með skömmu millibili til að reyna að stöðva blæðinguna, en varð ekki erindi sem erfiði. Honum virðist hins vegar hafa tekist í hálfleik að koma því sem þurfti til skila.

Hilmar Smári snemma í villuvandræðum

ÍR mætti með mikla orku inn í seinni hálfleikinn og eftir að hafa varla tekið, hvað þá hitt, úr þriggja stiga skoti í fyrri hálfleik fór allt í einu að rigna.

Ekki hjálpaði það Stjörnunni að Hilmar Smári, sem hafði verið einn besti leikmaður liðsins, lenti í villuvandræðum og þurfti að setjast á bekkinn. Hann kom svo inn á undir lok þriðja leikhluta, fékk sína fimmtu villu og tók ekki meira þátt í leiknum. Rándýrt fyrir Stjörnuna að missa hann þegar liðið var nú þegar þunnskipað.

Endurkoma úr erfiðri stöðu hjá Stjörnunni

ÍR leiddi með sex stigum þegar þriðja leikhluta lauk, byrjaði svo fjórða leikhluta á nokkrum stemningsskotum og var skyndilega komið með þrettán stiga forystu, 78-65.

Það leit ekki út fyrir endurkomu hjá Stjörnunni á þeim tímapunkti en þeir áttu frábærar lokamínútur og söxuðu sífellt á ÍR-inga sem börðust af öllum krafti við að halda forystunni.

Stjörnumönnum tókst svo að jafna leikinn 88-88 þegar minna en fimm sekúndur voru eftir, Jacob Falko rann til í lokasókn ÍR og því var haldið í framlengingu.

Framlenging

Þar voru ÍR-ingar alltaf skrefinu á undan og sýndu gríðarlegan sigurvilja, fórnuðu lífi og limum fyrir sigurinn. Bókstaflega, í tilfelli Jacob Falko sem fór meiddur út af þegar tæpar tuttugu sekúndur voru eftir.

ÍR missti þar leikmanninn sem hefði líklega tekið síðasta skotið fyrir þá, en heimamenn þurftu ekki á honum að halda því Bjarni Guðmann í liði Stjörnunnar kastaði loftbolta sem hitti ekki hringinn, ÍR gat því tekið frákastið og látið klukkuna renna út í rólegheitum. Lokatölur 103-101.

Atvik leiksins

Fyrirliðinn Hákon Örn fór langt með að leiða lið sitt að sigrinum þegar hann stal boltanum í framlengingu og keyrði á körfu Stjörnunnar, setti svo þriggja stiga skot í næstu sókn og breikkaði bilið í fimm stig.

Staðan í deildinni

Stjarnan er í efsta sæti deildarinnar, með tveggja stiga forskot á Tindastól sem á þó leik til góða gegn Haukum á morgun. ÍR hefur nú safnað tólf stigum eftir fjórtán umferðir og er í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira