Körfubolti

Jón Axel spilaði uppi fé­lagana í áttunda sigrinum í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Axel Guðmundsson er í stóru hlutverki hjá besta liði spænsku b-deildarinnar í körfubolta.
Jón Axel Guðmundsson er í stóru hlutverki hjá besta liði spænsku b-deildarinnar í körfubolta. Getty/Borja B. Hojas

Jón Axel Guðmundsson og félagar hans í San Pablo Burgos eru aftur komnir upp í efsta sæti spænsku b-deildarinnar í körfubolta eftir góðan útisigur í hádeginu.

San Pablo Burgos vann þá fjögurra stiga sigur á liði Movistar Estudiantes, 95-91.

Þetta var áttundi deildarsigur San Pablo Burgos og fimmtándi sigurinn í sextán deildarleikjum í vetur. Liðið komst aftur upp fyrir Fuenlabrada sem er nú einu stigi á eftir.

Efsta liðið fer beint upp en næstu átta fara í úrslitakeppni um laust sæti í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.

Jón Axel spilaði vel uppi félaga sína í leiknum í dag og gaf alls níu stoðsendingar. Hann var einnig með tólf stig, þrjú fráköst og tvo stolna bolta á þeim 28 mínútum sem hann spilaði.

Jón Axel reyndi bara fimm skot í leiknum og hitti úr tveimur af fjórum þriggja stiga skotum sínum. Hann nýtti sex af sjö vítaskotum sínum.  Burgos vann mínútur Jóns með þrettán stigum en hann var hæstur í plús og mínus hjá liðinu.

San Pablo Burgos var reyndar fimm stigum undir í hálfleik, 39-44, en vann þriðja leikhlutann með tíu stigum, 32-22.

San Pablo Burgos var komið með gott forskot í lokaleikhlutanum en heimsmenn sóttu aðeins að þeim í lokin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×