Strákarnir hans Dags unnu 36-22 sigur í gærkvöld og þessi byrjun hefur eflaust ekki slegið á væntingar heimamanna sem ætla sér eflaust langt á mótinu. Dagur segist þó ekki finna fyrir mikilli pressu, þó eflaust sé hún til staðar.
Boris Dvorsek, fyrrverandi aðstoðarþjálfari Króatíu, segir að hafa verði í huga að Barein sé ekki eitt af erfiðustu liðunum á mótinu. Næsti leikur sé svo við álíka andstæðing, Argentínu, sem þó sé mögulega aðeins sterkara lið en Barein.
„Það er gott að við skulum byrja á tveimur svona leikjum. Og þarna gerði Dagur vel, því hann lét allt liðið spila. Allir spiluðu og fengu góðar mínútur. Að mínu mati ætti að gera það sama gegn Argentínu. Þetta er nefnilega frábær æfing fyrir mikilvægu leikina sem fylgja í kjölfarið, fyrst gegn Egyptalandi og svo í milliriðli við Ísland og Slóveníu,“ segir Dvorsek við Tportal.
„Það er mjög mikilvægt að hafa eins marga leikmenn og hægt er í toppformi, því þetta er langt mót. Það sem heillaði mig sérstaklega er hve rosalega hreyfanlegir menn voru í 6-0 vörninni. Því leikmenn Barein eru fljótir, góðir í að finta, ekki klassískir skotmenn en við lokuðum miðsvæðinu afar vel,“ segir Dvorsek en ítrekar að Barein sé ekki eitt besta lið mótsins.
🇭🇷 Tribute to a legend!
— Hen Livgot (@Hen_Livgot) January 16, 2025
Fans honored Croatia’s captain Domagoj Duvnjak during the 5th minute of the match vs. Bahrain at #HWC2025 with a heartfelt banner: "Hvala, kapetane" (Thank you, captain).
Duvnjak leads Croatia one last time, aiming for another medal. A true icon! 🙌… pic.twitter.com/sekxxiu9vt
Á fimmtu mínútu leiksins í gær var Duvnjak, sem klæðist treyju númer fimm, hylltur sérstaklega. Stuðningsmenn rúlluðu út gríðarstórum fána með mynd af hetjunni sinni en Duvnjak, sem er 36 ára, hefur spilað fyrir landsliðið frá árinu 2006 og var lengi í hópi allra bestu leikmanna heims.
„Duvnjak var mjög, mjög góður í fyrri hálfleiknum,“ sagði Dvorsek en segir ljóst að fyrsta stóra prófið hjá Króötum sé á sunnudaginn, gegn Egyptum.