Sport

Las sjálfs­hjálpar­bók í miðjum leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
AJ Brown niðursokkinn í bókina Inner Excellence.
AJ Brown niðursokkinn í bókina Inner Excellence.

AJ Brown, einn besti útherji NFL-deildarinnar, las bók á hliðarlínunni þegar lið hans, Philadelphia Eagles, sigraði Green Bay Packers, 22-10, í 1. umferð úrslitakeppninnar í gær.

Eftir leikinn var Brown spurður út í bókarlesturinn og svaraði öllum spurningunum skilmerkilega.

Bókin sem hann las á bekknum var Inner Excellence eftir Jim Murphy sem var skrifuð til að „þjálfa hugann fyrir stórkostlega frammistöðu og besta lífið sem í boði er“.

Brown tekur bókina með sér í alla leiki en í gær náðust í fyrsta sinn myndir af honum lesa hana. Hann sagðist ekki hafa gripið í hana því hann var ósáttur.

„Ég var ekkert pirraður. Mér datt í hug að það væri það sem þið væruð allir að hugsa. Af hverju haldiði alltaf að ég sé pirraður? Mér nýt þess að lesa,“ sagði Brown.

Brown tjáði sig meira um lesturinn á X þar sem hann sagði að níutíu prósent af leiknum væri andlegt og hann mætti með bókina í alla leiki og læsi það í hléum. Brown notar lesturinn til að ná aftur einbeitingu hvað sem gerðist í leiknum, gott eða slæmt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×