Allir sem vitað er að hafa dáið fundust í Altadena en þau létust vegna Eaton-eldsins svokallaða. Hann dreifði gífurlega hratt úr sér á þriðjudaginn og höfðu íbúar mjög takmarkaðan tíma til að flýja. Óttast er að fleiri hafi dáið en vitað sé.
Sjá einnig: „Skóli barnanna er farinn, flestar verslanir og ég veit ekki hversu mörg hús“
Að minnsta kosti 130 þúsund manns hafa þurft að flýja heimili sín vegna eldanna. LA Times segir þetta einhverja skæðustu gróðurelda svæðisins í manna minnum.

Enn sem komið er hafa eldarnir að mestu brunnið stjórnlausir og hefur slökkviliðsmönnum ekkert gengið að ná tökum á þeim. Þeir eru sagðir verulega þreyttir eftir linnulaus störf undanfarna daga en tveir nýir eldar kviknuðu í gærkvöldi.
Mikill og þurr vindur hefur verið á svæðinu og hefur það gert slökkvistarf sérstaklega erfitt. Þó dregið hafi úr vindi er talið að veðrið muni lítið hjálpa fyrr en í fyrsta lagi í annað kvöld.
Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá Los Angeles sem flestar voru teknar af ljósmyndurum AP fréttaveitunnar í morgun og í gærkvöldi.


















