Körfubolti

Butler vill í burtu: Til­búinn að spila með öllum liðum nema Miami Heat

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jimmy Butler fann sig alls ekki í leiknum á móti Indiana Pacers í nótt.
Jimmy Butler fann sig alls ekki í leiknum á móti Indiana Pacers í nótt. Getty/ Brennan Asplen

Framtíð NBA körfuboltamannsins Jimmy Butler hjá Miami Heat er enn til umræðu hjá bandarískum fjölmiðlum og nú er því slegið upp að leikmaðurinn vilji hreinlega komast í burtu frá Miami.

Butler hefur verið orðaður við brottför frá Miami í nokkurn tíma en í síðustu viku steig Pat Riley, forseti félagsins fram, og gaf það út að félagið myndi ekki skipta honum í burtu.

Í nótt fóru NBA blaðamenn aftur á móti að segja frá því að samkvæmt þeirra heimildum þá vildi Butler losna og væri í raun tilbúinn að spila með öllum liðum nema Miami Heat.

Butler er sagður viss um það að geta gert öll önnur lið að meistarakandídötum.

Hann lék með Miami Heat í nótt og skoraði þá aðeins níu stig í tapi á móti Indiana Pacers. Eftir leikinn talaði hann um að hann hafi tapað gleðinni að spila í Miami.

„Ég vil finna gleðina aftur að spila körfubolta. Hvar þar verður er eitthvað sem við komust að á næstunni,“ sagði Butler sposkur.

„Ég er ánægður hér utan vallar en vill komast sjálfur á betri stað inn á vellinum. Ég vil spila góðan körfubolta og ég vil hjálpa þessu liði að vinna. Ég er ekki að gera það núna,“ sagði Butler.

Hann játti því síðan að þá gleði fyndi hann líklegast ekki í Miami.

Butler hefur lengi þótt tilheyra bestu leikmönnum deildarinnar en í vetur er hann með 18,0 stig og 4,7 stoðsendingar í leik. Það eru lægri tölur en tímabilið á undan þegar hann var með 20,8 stig og 5,0 stoðsendingar í leik sem var síðan lægra en tímabilið 2022-23 þegar hann var með 22,9 stig og 5,4 stoðsendingar í leik.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×