Talið er að um hafi verið að ræða ágreining í áramótagleðskap sem stigmagnaðist og leiddi til slagsmála þar sem gripið var til vopnsins. Nokkrir hlutu áverka, en einn þó sýnu verst og var sá sagður alvarlega slasaður eftir atlöguna. Sá hlaut stungu í brjósthol en var fluttur af gjörgæslu á almenna deild á Landspítala síðdegis í gær. Tveir til viðbótar sem særðust í árásinni hafa verið útskrifaðir af spítala.
Elín Agnes Kristínardóttir, aðstoðayfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir í samtali við fréttastofu að ekki standi til að fara fram á gæsluvarðhald yfir fleirum í tengslum við málið að svo stöddu.