Eftir að hafa unnið ellefu deildarleiki í röð gerði Atalanta jafntefli við Lazio, 1-1, í síðasta leik dagsins í ítölsku úrvalsdeildinni.
Inter komst á toppinn með 0-3 sigri á Cagliari fyrr í kvöld en Atalanta fékk tækifæri til að endurheimta toppsætið þegar liðið mætti Lazio á Ólympíuleikvanginum í Róm.
Lazio komst yfir á 27. mínútu með marki frá Fisayo Dele-Bashiru. Staðan var 1-0 allt þar til tvær mínútur voru eftir en þá jafnaði Marco Brescianini fyrir Atalanta, fjórum mínútum eftir að hann kom inn á sem varamaður.
Stigið dugði Atalanta til að komast aftur á toppinn og liðið verður þar þegar árið 2025 gengur í garð, ekki nema Napoli vinni tíu marka sigur á Venezia á morgun.
Atalanta hefur verið á frábærri siglingu að undanförnu og ekki tapað deildarleik síðan 24. september.
Árið 2024 hefur verið gott fyrir Atalanta en liðið vann Evrópudeildina í vor, lenti í 4. sæti ítölsku deildarinnar á síðasta tímabili og er með ellefu stig eftir sex leiki í Meistaradeild Evrópu.