Körfubolti

Riley búinn að fá nóg og þver­tekur fyrir að Miami muni skipta Butler

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jimmy Butler hefur leikið með Miami Heat síðan 2019.
Jimmy Butler hefur leikið með Miami Heat síðan 2019. getty/Carmen Mandato

Pat Riley, forseti Miami Heat, segir ekkert hæft í fréttum þess efnis að félagið ætli að skipta Jimmy Butler í burtu.

ESPN greindi frá því að Butler vildi komast burt frá Miami áður en félagaskiptaglugganum í NBA verður lokað 6. febrúar.

Vegna fréttanna af mögulegu brotthvarfi Butlers sá Riley sig knúinn til að senda frá sér yfirlýsingu um að leikmaðurinn sé ekki á förum frá Miami.

„Við tjáum okkur venjulega ekki um orðróma en allar þessar getgátur hafa truflandi áhrif á liðið og það er ekki sanngjarnt fyrir leikmenn og þjálfara. Þannig viljum við koma því skýrt á framfæri: Við skiptum ekki Jimmy Butler,“ segir Riley í yfirlýsingunni.

Butler hefur tvívegis leitt Miami í úrslit NBA og einu sinni í úrslit Austurdeildarinnar síðan hann kom til liðsins frá Philadelphia 76ers fyrir fimm árum.

Í vetur er Butler með 18,5 stig, 5,8 fráköst og 4,9 stoðsendingar að meðaltali í leik. Miami er í 6. sæti Austurdeildarinnar með fjórtán sigra og þrettán töp.

Butler, sem er 35 ára, hefur ekki tekið þátt í síðustu þremur leikjum Miami vegna veikinda og meiðsla. Miami sigraði Orlando Magic í nótt, 88-89.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×