Körfubolti

„Ég elska NFL en jóla­dagur er okkar“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
LeBron James var að spila í nítjánda sinn á jóladag.
LeBron James var að spila í nítjánda sinn á jóladag. Thearon W. Henderson/Getty Images

LeBron James hefur unnið flesta leiki á jóladag í sögu NBA deildarinnar. Ellefti sigurinn skilaði sér gegn Golden State Warriors þegar Los Angeles Lakers unnu 115-113 í gær en þá fóru einnig leikir fram í NFL deildinni.

Lakers unnu leikinn þrátt fyrir að missa Anthony Davis meiddan af velli eftir aðeins átta mínútur. Austin Reaves steig upp og setti sína fyrstu þreföldu tvennu á ferlinum, þar af sigurkörfuna þegar aðeins tvær sekúndur voru eftir.

Steph Curry sjóðhitnaði og komst nálægt því að stela sigrinum fyrir Warriors undir lokin, hann setti átta stig á lokamínútunni og jafnaði leikinn með stórkostlegu þriggja stiga skoti þegar aðeins átta sekúndur voru eftir, en Austin Reaves sá til sigurs Lakers.

Jóladagur í eigu NBA

„Ég elska NFL deildina, en jóladagur er okkar“ sagði LeBron James við ESPN eftir leik.

NFL deildin var með tvo leiki á jóladag sem lesa má um hér fyrir neðan.

Steph Curry var sammála LeBron og sagði jólin hátíð körfuboltans.

„Ég er búinn að horfa á körfubolta síðan ég vaknaði í morgun, alla fimm leikina. Ég er á leiðinni að horfa á seinni hálfleik í Suns-Nuggets leiknum. Ég veit að okkar leikur stóð líka upp úr. Það eru forréttindi að vera í þessari stöðu, þetta er alltaf svo skemmtilegt,“ sagði Curry sem var að spila gegn LeBron á jóladag í fjórða sinn á ferlinum.

„Leikirnir hafa alltaf verið rafmagnaðir og eiginlega skyldusjónvarpsáhorf. Ég elska þetta. Maður veit aldrei hversu marga jólaleiki maður á eftir, þannig að það er um að gera að njóta meðan hægt er,“ sagði hann að lokum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×