Fyrrverandi eiginmaður hennar, Dominique Pelicot er sakaður um að hafa byrlað henni ólyfjan án hennar vitundar og síðan boðið tugum manna sem hann kynntist á netinu að nauðga henni í rúmi þeirra hjóna á meðan hún var án meðvitundar. Þessu athæfi hélt hann áfram óslitið frá árinu 2011 og fram til 2020.
Málið hefur vakið gríðarlega athygli í Frakklandi og í raun um allan heim en það var Gisèle sjálf sem ákvað að réttarhöldin yrðu fyrir opnum tjöldum og að nöfn allra hlutaðeigandi yrðu gerð opinber. Þannig segist Gisèle hafa viljað skila skömminni á réttan stað, til nauðgaranna en frá fórnarlambinu.
Eiginmaðurinn hefur játað sök í málinu en flestir hinna sem ákærðir eru neita hinsvegar sök og segjast ekki hafa vitað af því að um nauðgun væri að ræða, heldur tæki Gisèle þátt af fúsum og frjálsum vilja.
Saksóknarar vilja að Dominique Pelicot verði dæmdur til þyngstu refsingar, sem er tuttugu ára langt fangelsi. Þá vilja þeir að einn nauðgaranna, sem smitaði Gisèle af HIV veirunni verði dæmur í átján ára fangelsi og tíu aðra vilja saksóknarar dæma í 15 til 17 ár. Yfir hinum þrátíu og átta er svo krafist fangelsis frá tíu til fjórtán ára.