„Ég get sagt eins og Mark Twain að “fréttir af (pólitísku) andláti mínu og útför (brottför) eru stórlega ýktar”,“ segir Sigurður Ingi á Facebook.
Í morgun birtist frétt í greinaflokknum Orðrómur á vef Mannlífs þar sem að sagði að mikil óánægja væri með frammistöðu Sigurðar í nýafstöðnum kosningum þar sem Framsóknarflokkurinn fékk fimm menn kjörna á þing.
Þar sagði líka að reiknað væri með því að hann myndi víkja úr formannsstólnum fyrir næsta landsfund Framsóknarmanna. Jafnframt kom fram að orðrómur væri á lofti um að hann væri búin að tryggja sér starf sem ráðgjafi FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, en hún hefur aðsetur í Róm.
„Ég er ekki að fara til Rómar til FAO eða nokkuð annað. Eina sem ég hef huxað mér - á nýju ári - er að ganga aftur í karlakórinn minn - Karlakór Hreppamanna,“ skrifar Sigurður sem furðar sig á þessum sögusögnum.
„Hitt er svo meira undrunarefni hver setur svona þvælu á flug og afhverju.“