„Við viljum að þessu hræðilega stríði ljúki sem fyrst og að friður komist aftur á í Evrópu,“ sagði Merz við komuna til Kænugarðs.
Þjóðverjar ganga til kosninga 23. febrúar eftir að þriggja flokka samsteypustjórn Olafs Scholz sprakk með hvelli í síðasta mánuði. Útlit er fyrir að Úkraína verði eitt helsta kosningamálið.
Merz hefur verið herskárri í afstöðu sinni til Rússlands en Scholz. Hann hefur til að mynda sagt að Þjóðverjar ættu að láta Úkraínumönnum í té langdrægar Taurus-stýriflaugar ef Rússar halda áfram að gera árásir á borgaralega innviði landsins, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
„Pútín mun aðeins ganga að samningaborðinu ef staða Úkraínu er sterk. Ef stuðningur okkar við Úkraínu dvínar dregst þetta stríð á langinn. Ef við verðum stöðug í stuðningi okkar endar þetta stríð fyrr,“ sagði Merz í morgun.
Scholz hefur aftur á móti stært sig af því að vera varkár í stuðningi við Úkraínu og að þráast við að gefa vopn sem Úkraínumenn hafa sóst eftir. Hann sætti nokkurri gagnrýni fyrir að ræða við Vladímír Pútín Rússlandsforseta í síma í síðasta mánuði. Það var fyrsta samtal leiðtoganna tveggja í tvö ár.