Daníel Örn var ákærður og sakfelldur fyrir tilraun til manndráps með því að hafa stungið lækninn að minnsta kosti fjórum sinnum í háls, síðu og nára. Hann játaði verknaðinn en hafnaði því að um tilraun til manndráps hafi verið að ræða.
Tvær og hálf milljón í bætur
Atvik málsins urðu föstudagskvöld í júní þegar læknirinn var á göngu ásamt eiginkonu sinni og vinahjónum þeirra. Ítarlega var fjallað um málið þegar það var til meðferðar í Héraðsdómi Reykjaness í nóvember.
Dómur var kveðinn upp í málinu í dag og Daníel Örn dæmdur til fjögurra ára óskilorðsbundins fangelsis og til að greiða lækninum tvær milljónir króna í miskabætur, 200 þúsund krónur í skaðabætur og 413 þúsund krónur í þjáningabætur. Þá var hann dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar, 6,5 milljóna króna, þar með talda 3,9 milljóna króna þóknun skipaðs verjanda hans.
Fór niður fyrir lágmarksrefsingu
Athygli vekur að Daníel Örn hlaut aðeins fjögurra ára fangelsisdóm en lágmarksrefsing fyrir tilraun til manndráps er fimm ára fangelsisvist.
Í dóminum segir að samkvæmt almennum hegningarlögum megi þó dæma lægri refsingu þegar af tilraun má ráða að brotamaður sé ekki eins hættulegur og vilji hans ekki eins harðnaður og ætla má að sé um menn sem fullfremja slík brot.
Þegar virtur sé allur aðdragandi að verknaði Daníels Arnar, hliðsjón höfð af þeirri tilviljunarkenndu og hröðu atburðarás sem leiddi til hnífaatlögunnar, sem og því að samkvæmt dómsframburði hans og læknisins bendi ekkert til þess að atlagan hafi verið heiftúðleg, þyki mega líta til þess ákvæðis og fara niður fyrir lágmarksrefsingu.