Holland og Þýskaland unnu bæði sína leiki í fyrstu umferð riðlakeppninnar og var því ljóst að sigurlið kvöldsins færi í það minnsta mjög langt með að tryggja sér þátttökurétt í milliriðli.
Þjóðverjar höfðu yfirhöndina framan af í fyrri hálfleik og náðu mest sex marka forskoti. Hollenska liðið vaknaði hins vegar heldur betur til lífsins og snéri leiknum sér í hag og leiddu 15-14 þegar flautað var til hálfleiks.
Í síðari hálfleik höfðu Hollendingar svo góð tök á leiknum og unnu að lokum nokkuð öruggan sjö marka sigur, 29-22. Hollenska liðið er því nú með fjögur stig eftir tvo leiki á toppi F-riðils. Þjóðverjar eru í öðru sæti með tvö stig og Ísland og Úkraína eru bæði án stiga, en íslensku stelpurnar mæta þeim úkraínsku í kvöld.