Sport

Nefna völl eftir nemanda sem lést á golf­velli

Sindri Sverrisson skrifar
Filip Krüeger var landsliðsmaður Svíþjóðar í skvassi.
Filip Krüeger var landsliðsmaður Svíþjóðar í skvassi. Mynd/Drexeldragons

Drexel-háskólinn í Philadelphia í Bandaríkjunum hefur heiðrað minningu Svíans Filip Krüeger með því að nefna skvassvöll skólans eftir honum.

Krüeger var aðeins 25 ára gamall þegar hann lést í slysi á golfvelli í vor. Tré féll þá ofan á golfbíl sem hann og vinur hans sátu í. Krüeger lést samstundis en vinur hans lifði af.

Krüeger var landsliðsmaður Svía í skvassi og að loknum menntaskóla ákvað hann að flytja til Bandaríkjanna til að æfa skvass hjá Drexel-háskólanum ásamt því að sinna námi í rekstrarverkfræði.

Um síðustu helgi tilkynnti skólinn að skvassvöllurinn yrði nefndur eftir Krüeger, um leið og nýtt keppnistímabil hófst.

Fjölskylda og vinir Krüeger voru viðstödd, ásamt liðsfélögum hans úr sænska landsliðinu og landsliðsþjálfaranum Bolbol Aziz. Alls ferðuðust fimmtán manns frá Svíþjóð til að vera viðstödd. Kærasta Krüegers og þjálfari hans í Bandaríkjunum fluttu ræður.

„Það helltust auðvitað yfir mann tilfinningar. Þetta var erfitt en auðvitað alveg frábært að sjá alla ástina sem hann fær. Maður var líka stoltur að sjá þetta sem þjálfari. Þetta var því tilfinningarík en ánægjuleg stund,“ sagði Aziz við sænska miðilinn Expressen.

Aziz hafði áður látið nefna völl eftir Krüeger í heimaborg hans Stokkhólmi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×