Kennarar við Fjölbrautarskóla Suðurlands, eða FSU, hafa verið í verkfalli frá 29. október síðastliðnum, en því lýkur að óbreyttu 20. desember.
Lítill gangur virðist vera í viðræðum Kennarasambandsins við ríki og sveitarfélög, og formlegur fundur samninganefnda ekki verið haldinn í tvær vikur.
Ósanngjarnt og fáránlegt
Formaður nemendafélags FSU segir óvissu um framhaldið leggjast illa í nemendur skólans.
„Við vitum einhvern veginn ekkert hvað er að frétta, eða hvort það sé eitthvað að frétta. Sömuleiðis með framhaldið, hvernig næstu önn verður háttað og svo framvegis,“ segir Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir, formaður nemendafélags FSU.
Hún segir nemendur ósátta með útfærslu á verkfallinu.
„Okkur finnst þessi aðgerð, og hvernig fyrirkomulagi verkfallsins er háttað, að velja bara einn skóla umfram aðra vera frekar ósanngjörn og í raun bara frekar fáránleg.“
Allir að pæla í MR
Á morgun hefst verkfall kennara í Menntaskólanum í Reykjavík, en Dýrleif segir nemendur hafa upplifað sig hundsaða fram að þessu.
„En núna þegar MR er að fara í verkfall þá allt í einu byrja fjölmiðlar og aðrir að pæla meira í þessu. Annars upplifum við okkur svolítið eins og við séum gleymd, bara einhver skóli úti á landi.“
Nemendur vilji komast í skólann sem fyrst.
„Það er erfitt að halda rútínu fyrir marga. Ég veit um suma sem gátu litið á þá björtu hlið þegar verkfallið var að byrja að þeir gætu bara farið að vinna. Svo er alls ekkert öllum sem gefst kostur á því að fá vinnu. Sumum fannst þetta algjör lúxus í eina viku, en svo þegar fólk gerir sér grein fyrir því að það líti ekki út fyrir að við séum að fara að mæta aftur fyrir jól, þá er þetta orðið svolítið þreytt,“ segir Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir.