Þorsteinn átti frábæran leik þegar Ísland lagði Bosníu, 32-26, í undankeppni EM í síðustu viku. Hann skoraði þá átta mörk úr níu skotum í seinni hálfleik.
Mosfellingurinn fylgdi því eftir með því að skora sex mörk í stórsigri Porto í dag. Með honum komst liðið á topp portúgölsku deildarinnar. Sporting getur endurheimt toppsætið með því að vinna Aguas Santas í kvöld.
Strákarnir hans Guðmundar Guðmundssonar í Fredericia unnu öruggan sigur á Bjerringbro/Silkeborg, 30-21, í dönsku úrvalsdeildinni. Fredericia er í 2. sæti með sautján stig, tveimur stigum á eftir toppliði GOG.
Arnór Viðarsson og Einar Þorsteinn Ólafsson voru ekki á meðal markaskorara hjá Fredericia. Besti maður liðsins var markvörðurinn Sebastian Frandsen en hann varði átján skot (48,7 prósent).
Benedikt Gunnar Óskarsson skoraði fjögur mörk fyrir Kolstad sem sigraði Halden, 22-26, í norsku úrvalsdeildinni. Kolstad er í 2. sæti hennar með átján stig, jafn mörg og topplið Elverum sem á leik til góða.
Sveinn Jóhannsson skoraði þrjú mörk fyrir Kolstad í dag og fyrirliðinn Sigvaldi Guðjónsson tvö.