Innlent

Nýju hús­næði Mynd­lista­skólans lokað

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Áslaug Thorlacius er skólastjóri Myndlistaskólans. 
Áslaug Thorlacius er skólastjóri Myndlistaskólans.  vísir/ívar

Eldvarnareftirlit og byggingarfulltrúi Reykjavíkurborgar gerðu athugasemdir við nýtt húsnæði Myndlistaskólans í Reykjavík í dag og í kjölfarið var skólanum lokað.

Þetta staðfestir Áslaug Thorlacius skólastjóri skólans en Rúv greindi fyrst frá. 

„ Við keyptum þetta hús um miðjan júlí og erum nýflutt. Við erum með skóla sem á enga peninga og erum háð því að kaupa og selja. Við þurftum að gera þetta hratt en þú gerir ekki allt í einu. Ég tek fullt mark á því sem er sagt í þessum athugasemdum og veit að þær eiga rétt á sér,“ segir Áslaug í samtali við Vísi. 

Bætt verður úr einhverjum annmörkum um helgina en byggingaleyfið þvælist enn fyrir.

„Kannski er það reynsluleysi hjá okkur sem erum ekki alltaf að byggja. Maður bara veit ekki allt.“

Skólinn, sem var áður til húsa í JL-húsinu, flutti í nýtt hús við Rauðarárstíg í miðborg Reykjavíkur í haust. 

Hún vonast til þess að málið klárist sem fyrst. 

„Þetta er auðvitað mjög alvarlegt, að loka skóla. Hér erum við með nemendur á daginn og kvöldin, þannig við verðum bara að gera þetta eins hratt og hægt er,“ segir Áslaug og bætir við að vatnsúðakerfi hafi ekki verið til staðar ásamt eldvarnarhurð. 

„Þetta eru ákveðin tæknileg atriði en þetta leysist vonandi sem fyrst.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×