Staðurinn opnaði í desember 2021, en það var Guðmundur Jörundsson, fatahönnuður, sem rak fyrirtækið. Benedikt Andrason og Kjartan Óli Guðmundsson höfðu verið með honum í rekstrinum, en sá fyrrnefndi hætti í fyrra og sá síðarnefndi í byrjun árs samkvæmt heimildum fréttastofu.
Þegar staðurinn opnaði var greint frá því að hjónin Davíð Másson og Lilja Einarsdóttir og félagi þeirra Finnur Björn Harðarson væru bakhjarlar verkefnisins og helstu fjárfestar.
Nebraska var bæði veitingastaður og fatavöruverslun. Guðmundur sagði í Íslandi í dag í apríl síðastliðnum að hann hefði gengið lengi með hugmyndina í maganum.
„Fataverslun og tíska er svolítið stíft og mörgum finnst óþægilegt að koma inn í svona búðir. Þá verður allt afslappaðra þegar þú ert kominn með mat og vín, og eitthvað sem er hægt að tala um,“ sagði Guðmundur í Íslandi í dag.
Í fatabúðinni mátti finna merkjavörur frá Heliot Emil, Suicoke og Racer Woldwide svo fátt eitt sé nefnt. Á veitingastaðnum var boðið upp á fjölbreyttan matseðil. Einnig var vínbar á Nebraska með gott úrval af veigum.
„Nafnið er mjög tilviljanakennt, við fíluðum bara útlitið á nafninu Nebraska. Innblásturinn er kannski Bruce Springsteen platan Nebraska, hugmyndin kemur kannski svolítið þaðan. En þetta er ekki tilvísun í neitt sérstakt, þetta er bara flott nafn, eins og íslenskt orð líka, hart og flott,“ sagði Guðmundur um nafnavalið við Vísi um það leyti sem staðurinn opnaði 2021.